Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

stefna í sjávarútvegsmálum.

[10:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sem ég fékk reyndar ekki. Það skortir ekki á vilja Flokks fólksins til góðra verka og hefur aldrei gert.

Ég vil enn spyrja spurningar í ljósi þess að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hélt fund núna í sumar á Ísafirði þar sem eindreginn vilji var til þess að auka við strandveiðikvótann ef eitthvað var. Mig langar til þess að spyrja: Hefur hæstv. ráðherra engar áhyggjur af því ef það verður búið að þurrka út þennan kvóta og það á að láta þau fara að rækta kartöflur í staðinn, sem dæmi? Hefur ráðherrann ekki áhyggjur af því að við förum að horfa upp á enn brothættari byggðir en nú er? Og í öðru lagi: Hvað kostaði þessi stóra nefnd? Varla hafa þau verið í sjálfboðavinnu. Í þriðja lagi: Miðað við að allt er vænt sem vel er grænt hjá Vinstri grænum þá er staðreyndin sú að nú er jafnvel verið að leyfa stærðarinnar togurum með manni og mús og trolli og öllu saman hreinlega að fara að veiða nánast inni í hjónarúmi hjá hjá fólki í landinu. Er það umhverfisvænt að ætla að níðast svona rosalega á lífríkinu algerlega upp í fjöru?