Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Ég tel mig ekki geta skotið á tölu um hver áhrifin yrðu en ég tel vera fullvíst að kærunefnd útlendingamála gæti þá ekki lagt áherslu á efnahagsástandið í viðkomandi ríki þegar metið er hvort einstaklingur eigi á hættu að sæta ómannúðlegri meðferð eða vanvirðandi meðferð. Það atriði, að fjalla um efnahagsástand í ríki, væri ekki hægt að gera með sama hætti og leggja það til grundvallar úrskurðinum. Það yrði þá horfa einstaklingsbundið á stöðu þess einstaklings sem kæmi fyrir kærunefndina, hvort það sé verið að ofsækja hann eða ekki. Það er grundvallaratriðið í þessu. Það byggir á þeirri skilgreiningu hvort einstaklingur sé efnahagslegur innflytjandi eða flóttamaður. Ég tel að skilgreiningin í lögunum um hver sé flóttamaður sé alveg skýr. Þú þarft að búa við rökstuddan ótta við að vera ofsóttur vegna stjórnmálaskoðana og annarra atriða. Það er alveg skýrt. Það fólk á sannarlega rétt á að fá alþjóðlega vernd á Íslandi. Ég tel að þessi úrskurður sé ein af þessum sérreglum sem við erum að glíma við. Ég tek bara dæmi um að við erum að fá hlutfallslega of margar umsóknir frá Venesúela miðað við önnur ríki. Ég tek dæmi að umsóknir um hæli í Bandaríkjunum voru 22.000 á meðan við erum með 361. Miðað við Bandaríkin ættum við að vera að fá 22 umsóknir. (Forseti hringir.) Bandaríkin ætla að veita 24.000 manns hæli af mannúðarástæðum sem myndi þýða 24 á Íslandi en við erum með sennilega 1.500 umsóknir á síðasta ári frá Venesúela.