Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:53]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef enn ekki fengið nein svör við þeim ótal spurningum sem ég hef lagt fram í ræðum á Alþingi um þetta mál þannig að ég held bara áfram að fara yfir nokkrar staðreyndir og langar að benda á að þann 24. maí 2022 mætti hæstv. dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, í viðtal á Rás 2 og mig langar að fara aðeins yfir þær misfellur sem fram komu í því viðtali.

Sú fyrsta er að breyta þurfi lögum til að hætta að senda fólk til Grikklands sem fengið hefur þar vernd. Þetta er rangt. Lögin veita samkvæmt orðanna hljóðan stjórnvöldum í raun mjög þrönga heimild til að senda fólk til baka þangað sem það hefur fengið vernd. Meginreglan er sú að umsókn skal tekin til efnismeðferðar hér á landi en framkvæmdin er eins og það sé undantekning og ráðherra talar eins og það sé ekki hægt. Það þarf ekki að breyta lögunum. Það þarf að breyta framkvæmdinni og það er á hendi ráðherra. Stjórnvöld hafa heimild til að senda fólk til baka. Þeim ber engin skylda til þess í neinum lagalegum skilningi — engin, aldrei. Enginn getur breytt þessari framkvæmd nema dómsmálaráðherra. Lögin eru ágæt hvað stöðu þessa fólks varðar. Þeim er bara rangt beitt. Flóttafólk í þessari stöðu hefur síðan ekki aðgang að dómstólum þar sem það fær ekki gjafsókn og fær ekki að vera á landinu meðan beðið er eftir niðurstöðu dómstóla. Þá endurskoða dómstólar ekki mat stjórnvalda nema að mjög takmörkuðu leyti.

Önnur misfellan er að fólk sem fær vernd í einu Evrópuríki geti farið hvert sem er í Evrópu og leitað sér að vinnu. Þetta er rangt. Dvalarleyfi fyrir flóttamann í einu Evrópuríki fylgir ferðaheimild innan Evrópu, sem ferðamaður í þrjá mánuði. Fólk í þessari stöðu hefur enga heimild til lengri dvalar eða atvinnu í öðrum ríkjum og á ekki raunhæfan kost á því að sækja um annars konar dvalar- og atvinnuleyfi en stöðu flóttamanns, sem er ekkert annað en dvalar- og atvinnuleyfi. Þau eru að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi með því að sækja um vernd.

Sú þriðja er að reglurnar séu skýrar um að fólk sem hefur fengið vernd í öðru landi skuli fara aftur þangað. Þetta er rangt. Eins og var farið yfir hérna áðan þá er þetta ekki skylda. Íslensk lög heimila og skylda jafnvel íslensk stjórnvöld til að meta hvert mál og senda fólk ekki í aðstæður á borð við þær sem margt flóttafólk býr við í Grikklandi, Ungverjalandi og á Ítalíu.

Þarna er ráðherra að lýsa lögunum eins og þau væru ef frumvarpið sem hér er til umræðu yrði samþykkt. Það er akkúrat kjarninn í málinu, með þessu frumvarpi er verið að leitast eftir því að hvítþvo framkvæmdina, að gera framkvæmdina sem hefur verið við lýði að lögum og þar með erum við að hætta að standa við alþjóðlegar skuldbindingar og líta fram hjá ákalli ótal samtaka um úrbætur í þessum málaflokki.

Það er reyndar nóg eftir af því sem kom fram í þessu viðtali. Ég þarf að víkja að því síðar þannig að ég óska eftir því, forseti, að fara aftur á mælendaskrá.