Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2023.

sala Íslandsbanka.

[14:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir hennar fyrirspurn hér. Ég hef sagt það, til að byrja með, að mér finnst skýrsla Ríkisendurskoðunar góð. Mér finnst hún draga fram ákveðna annmarka á framkvæmd þessarar sölu. Í þeirri skýrslu er ekki bent á nein lögbrot. Nú vitnar hv. þingmaður í orð ríkisendurskoðanda um að það hafi ekki verið hluti af þeirra verkefni, en það breytir því ekki að í öllu þessu ferli og í mjög ítarlegri yfirferð hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar yfir skýrslu ríkisendurskoðanda, hefur í raun ekkert komið fram sem bendir til þess að nein lögbrot hafi verið framin. Þar geri ég þó þann fyrirvara að við eigum enn eftir að sjá endanlega niðurstöðu Seðlabankans, Fjármálaeftirlits Seðlabankans, sem væntanlega ætti að liggja fyrir hér á næstu vikum miðað við þær fregnir sem hafa borist. Þá hefði ég talið að við værum komin með nokkuð skýra heildarmynd af málinu.

Af því að hv. þingmaður spyr mig um mína skoðun á þessu máli þá tel ég að skýrsla Ríkisendurskoðunar og skýrsla Fjármálaeftirlitsins, þegar hún liggur fyrir, sem ég get ekki sagt til um nákvæmlega hvenær verður en væntanlega á næstu vikum, ættu að veita heildstæða mynd af málinu. Ég hef enn ekki séð nein sannfærandi rök færð fyrir því að lög hafi verið brotin í þessu ferli.