153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

lengd þingfundar.

[15:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Í 23. gr. þingskapalaga segir að til fastanefnda geti þingið vísað þeim þingmálum sem lögð eru fram og þörf þyki að nefnd íhugi. Vísa megi máli til nefndar á hverju stigi þess og sé það gert áður en umræðu er lokið þá skuli henni frestað. Þá gildi við ræðutíma bara sömu reglur og venjulega. Það er alveg gert ráð fyrir því að hægt sé að gera hlé á 2. umr. og vísa málinu til nefndar. Það er ekkert flókið við það.

Hér hefur þingforseti talað um að það séu strax komnar einhverjar tafir á þingstarfið. Við erum hér við upphaf vetrarþings. Það er liðin ein vika af þinginu og þá er farið að tala um tafir á þingstörfum. (HVH: Í boði meiri hluta.) Í alvöru? Það er meiri hlutinn sem fer með dagskrárvaldið, tekur mál sem eru með endalaust mikið af neikvæðum umsögnum sem er ekkert brugðist við og ætlast til að það sé ekki talað um það. Auðvitað verður talað um allar þessar neikvæðu umsagnir sem meiri hlutinn er ekki að gera neitt við. Þess vegna, þegar ríkisstjórnin setur þetta mál sem fyrsta mál á dagskrá, tekur það þann tíma sem það þarf að taka. Ef sagt er að það sé að tefja önnur mál þá á bara að setja önnur mál fyrst á dagskrá.