153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

lengd þingfundar.

[15:20]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Líkt og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson benti á þá er heimild forseta til að vísa málinu til nefndar á þessu stigi mjög skýr og tilefnið er mjög skýrt. Það hafa komið fram fullyrðingar frá meiri hlutanum sjálfum um að hann telji þörf á að gera breytingar á þessu frumvarpi. Ég get ekki séð hvernig hægt er að færa rök fyrir því að málið eigi ekki að fara inn í nefnd. Það er það sem við erum að fara fram á. Við erum ekki að fara fram á það að fá að vera hérna fram eftir nóttu og tala við okkur sjálf. Við viljum fá að tala við meiri hlutann um þetta frumvarp. Við viljum að hér eigi sér stað raunverulegt lýðræðislegt samtal eða málið fari aftur inn í nefnd og það verði lagað og við getum haldið umræðunni áfram eftir það. Þetta eru eðlilegar kröfur. Það er ekkert óeðlilegt við þessar kröfur. Það er ekki hægt að hrópa hérna málþóf þegar við fáum ekki einu sinni svör, það er engin umræða að eiga sér stað hérna, þingfundur lengdur fram eftir nóttu til þess að reyna að fá okkur til að hætta. Það er bara verið að reyna að troða þessu máli í gegn án nokkurrar umræðu. Það er alveg ljóst af þessum vinnubrögðum. Það er ólýðræðislegt, ekki það sem við erum að gera. Það á að senda þetta mál strax aftur inn í nefnd samkvæmt beiðni hv. þm. Jódísar Skúladóttur sem óskaði eftir því strax í upphafi umræðunnar að það færi aftur inn í nefnd.