153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

lengd þingfundar.

[15:22]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þeir þingmenn sem hafa hlustað á umræður okkar hafa kannski tekið eftir því að við höfum bent á að það eru mörg atriði í þessu frumvarpi sem stangast mögulega á við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála og ýmislegt annað. Og það eru ekki bara við Píratar sem bendum á þetta heldur fjölmargir umsagnaraðilar. Þá langar mig að minna hæstv. forseta á að það eru fordæmi fyrir því að forseti kalli mál inn og sendi það aftur til nefndar í 2. umr. þegar um möguleg stjórnarskrárbrot er að ræða. Það var á tímum heimsfaraldurs þegar verið var að samþykkja frumvarp um flug þar sem átti allt í einu að banna að íslenskir ríkisborgarar væru teknir um borð. Þetta er fordæmi og það væri góður bragur á því að fylgja því fordæmi, forseti, því að hér er búið að (Forseti hringir.) koma með alvarlegar athugasemdir við þetta frumvarp, hvort það standist stjórnarskrá og það verðum við sem höfðum svarið drengskap hér að virða.