Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Þegar við slitum fundi hér í gær og frestuðum þessari umræðu var ég að fara yfir 4. gr. frumvarpsins sem við erum að ræða hér. Sú grein frumvarpsins bætir við frumvarpið heimild lögreglu til að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heilbrigði einstaklings til að geta ferðast. Þetta hljómar auðvitað eðlilega og í núgildandi lögum, og í þeirri framkvæmd sem tíðkast hefur á undanförnum árum, hefur lögreglu verið talið heimilt að afla svokallaðra flugfærnivottorða frá heilbrigðisyfirvöldum, þ.e. til að tryggja öryggi einstaklingsins, til að tryggja að viðkomandi sé í líkamlegu ástandi til að fara í flug, oftast frá Íslandi.

Það er hins vegar alveg ljóst að tilgangurinn með því að setja þetta ákvæði inn í lög um útlendinga er ekki sá að skerpa á þeirri heimild, sem er það sem haldið er fram af hálfu frumvarpshöfunda, heldur að auka á heimildir lögreglu og sprettur þetta beinlínis af málum, sem ég rakti m.a. hérna í gær, þar sem útlendingayfirvöld hafa aflað slíkra gagna með ólögmætum hætti og nú á að skjóta undir þá ólögmætu framkvæmd lagastoð.

Ég tók nokkur dæmi í gær og mig langar núna, í eins stuttu máli og mér er unnt, að fara örstutt yfir umsögn Rauða krossins um þetta ákvæði vegna þess að hún er nokkuð ítarleg. Ég leyfi mér að telja að framsetningin þar geti talist nokkuð flókin fyrir hvern þann sem les. Ég ætla að gera tilraun til að varpa ljósi á hana, reyna að útskýra hana á einhvers konar mannamáli eftir því sem mér er frekast unnt, verandi lögfræðingur sjálf.

Í umsögn Rauða krossins segir, með leyfi forseta:

„Í 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 17. gr. útlendingalaga sem Rauði krossinn telur tilefni til að gera athugasemdir við. Í ákvæðinu er lagt til að á eftir 2. mgr. 17. gr. komi ný málsgrein, 3. mgr., þar sem kveðið er á um heimild lögreglu til að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heilbrigði útlendings ef nauðsyn ber til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun hans skv. 104. gr. útlendingalaga. Í athugasemdum við frumvarpsgreinina segir að í vissum tilvikum geti reynst nauðsynlegt að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um að viðkomandi útlendingur sé nægilega hraustur til að geta ferðast. Með heilbrigðisyfirvöldum sé átt við alla þá aðila sem veiti heilbrigðisþjónustu í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, þar með talið heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn, hvort sem þeir starfi innan eða utan heilbrigðisstofnana.“

Af þessu mætti vera ljóst að markmiðið væri jákvætt, markmiðið væri gott og í þágu umsækjanda, til að gæta hans hagsmuna, til þess að tryggja að við séum ekki að fara með fólk í flug sem er ekki í líkamlegu eða andlegu ástandi til þess að þola það.

Áfram heldur í umsögninni, með leyfi forseta:

„Vísa frumvarpshöfundar í þessu sambandi til þess ástands sem upp kom vegna heimsfaraldursins og þess að ríki fóru að krefjast þess að útlendingar framvísuðu mótefna- eða bólusetningarvottorði á landamærum sem skilyrði fyrir inngöngu í hlutaðeigandi ríki. Þá vísa frumvarpshöfundar einnig til þeirrar stöðu sem upp kom hér á landi þegar útlendingar, sem yfirgefa áttu landið, neituðu að afhenda slík vottorð.“

Ég bendi á að hér er akkúrat öfugur tilgangur. Þarna er ekki verið að tryggja að einstaklingurinn sem flytja á sé nægilega líkamlega og andlega hraustur til að ferðast heldur snýst þetta um að gefa stjórnvöldum þau tæki sem þau þurfa byggt á virkilega persónulegum upplýsingum umsækjanda til að vinna gegn honum með þvingunaraðgerð.

Ég mun halda áfram máli mínu í næstu ræðu og óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá.