Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:29]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Hér undir lok þingfundar í gærkvöldi og aftur nú í morgun óskuðum við eftir því að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefði tök á því að koma hingað og tala við okkur um það hvernig þetta frumvarp skerðir rétt barna, réttindi sem hann og fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sömdu um og þótti mikil framför. Mig langar aðeins að tala um það hvernig þetta frumvarp hefur áhrif á börn á flótta.

Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur og okkur ber að tryggja það sem barni er fyrir bestu og að það skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Þetta er ekki bara mín skoðun. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem hefur verið fullgiltur og lögfestur á Íslandi, segir þetta svart á hvítu. Hingað til lands komu á síðasta ári 873 börn sem sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi. Þar af voru 458 drengir og 514 stúlkur og af þeim komu 31 fylgdarlaust, þar af 21 drengur og tíu stúlkur. Samkvæmt núgildandi lögum gilda sérstakir tímafrestir um málsmeðferð umsókna barna á flótta. Tímafrestirnir tryggja börnunum, sem hafa dvalið á Íslandi til lengri tíma, efnislega meðferð umsóknarinnar og heimila veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða fyrir börn sem hafa dvalið á Íslandi í meira en 15 mánuði. Þannig eru hagsmunir barnanna settir í fyrsta sæti. Þessu vilja þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs breyta og þar með brjóta alþjóðasáttmála og íslensk barnalög.

Þetta frumvarp myndi gera þessa tímafresti að engu. Stjórnvöldum yrði gert kleift að vísa börnum úr landi eftir að hafa búið hér jafnvel svo árum skipti ef einhver tengdur barninu, svo sem foreldri, annar aðstandandi eða jafnvel lögmaður barnsins, væri talinn hafa tafið málið, t.d. með því að gleyma viðtalstíma á allra fyrstu stigum málsins. Já, þá falla tímafrestirnir niður og árin sem líða veita barninu engan rétt.

Í umsögn Barnaheilla segir að í ljósi þess sé með öllu ótækt að frumvarpið búi svo um hnútana að tafir sem rekja megi til athafna annarra geti komið niður á því hvort umsókn barnsins hljóti efnislega meðferð hér á landi. Að sama skapi lýsti UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, því yfir að það stríði gegn bæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskum lögum að börn séu látin líða fyrir athafnir annarra. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun höfðu, af þeim 873 börnum sem sóttu um hæli, 616 börn fengið vernd af einhverju tagi, tvö alþjóðlega vernd, 144 viðbótarvernd og 463 dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og sjö vernd vegna fjölskyldutengsla. Þá hefur 31 barni verði vísað úr landi og 226 mál eru enn í vinnslu hjá Útlendingastofnun. Fjórum börnum hefur verið fylgt til baka til síns heimalands af lögreglu. 12 börn fóru sjálfviljug til baka í kjölfar þess að umsagnir þeirra voru dregnar til baka. Þar af fóru tíu til Grikklands, eitt til Ítalíu og eitt til Póllands. Það er þó eitt sem skekkir þessa tölfræði og það er hvernig Útlendingastofnun velur að tefja málsmeðferð barna sem koma hingað fylgdarlaus þangað til barnið nær 18 ára aldri og velja þá að vísa því úr landi sem fullorðnum einstaklingum. Nýlegt dæmi um þetta var drengur sem kom hingað fylgdarlaus 16 ára gamall en var vísað aftur til Grikklands á sama tíma og fjölskylda Husseins, fatlaða mannsins sem við höfum mikið talað um hér, var send úr landi. Þetta er skýlaust brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamningum um flóttamenn. Það er þetta sem við viljum ræða við hæstv. barnamálaráðherra. Ég skora eindregið á hann, sem talsmann og verndara barna á Íslandi, að koma hingað og segja okkur hvað ráðherra ætlar að gera í þessum málum.