Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Spurningunni er enn ósvarað. Ég veit ekki hvort hv. þingmenn meiri hlutans væru reiðubúnir að koma hingað og taka þátt í þessari umræðu og svara henni, það er kannski þeirra að svara því. Eins og kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta eru lagðar til breytingartillögur, lagðar til breytingar, um að fella brott ákveðin ákvæði frumvarpsins. Ég tók ekki undir þær breytingartillögur vegna þess að ég hef ítrekað velt þessu fyrir mér. Ég hef margoft verið spurð: Er ekki bara hægt að laga þetta, er ekki hægt að breyta þessu eitthvað? Ég er búin að rýna það ítrekað. Það er eitt ákvæði sem stendur eftir og það er 21. gr., og ég hef lagt það fram í sérstöku frumvarpi. Ég er t.d. hræddust við 7. gr., en 6. og 8. — ég veit eiginlega ekki hvað ég á að velja enda spila þær allar saman.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji í reynd einhverja leið til þess að gera þetta frumvarp þannig að það sé raunverulega verið að vinna að skilvirkni án þess að brjóta á mannréttindum fólks.