Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:25]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða útlendingamálið sem er verið að leggja fram í fimmta skiptið á nokkrum árum eins og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir benti á. Það er rosalega margt sem vekur óhug við umfjöllun þessa frumvarps en ég hef kannski ekki tíma í 20 mínútna ræðu til að stikla á öllu. Það er þó mikilvægt að hafa í huga þegar við samþykkjum lög hér á Alþingi að það sé rætt í þaula og að við gerum okkur grein fyrir þeim áhrifum sem fylgja þessum lagabreytingum ef þingið skyldi samþykkja frumvarpið sem um ræðir.

Þetta frumvarp hefur fengið fjölmargar umsagnir. Það hafa komið fram athugasemdir, bæði frá þingmönnum og viðeigandi stofnunum og samtökum en ég ætla að byrja á því að segja að það er vissulega mjög nauðsynlegt að bæta kerfið hér sem tekur utan um útlendinga og fólk á flótta. Það er mikilvægt að bæta skilvirkni í þessu kerfi en staðreyndin er bara sú að þetta frumvarp minnkar skilvirknina sem dómsmálaráðherra vill svo mikið auka með einræðum sínum í fjölmiðlum um hvað þetta frumvarp sé gott og geri hitt og þetta. Svo er náttúrlega bara vert að nefna að það eru bara nokkur ár síðan síðustu lög um útlendinga voru samþykkt af þinginu og þó svo að það ríki sátt um núverandi útlendingalög, sem ég man ekki númer hvað eru, þá teygir Útlendingastofnun sig eins langt og hún getur til að túlka og beita lögunum á eins íþyngjandi hátt og hægt er. Þetta er að gerast með núverandi lög sem voru samþykkt í þverpólitískri sátt þvert á flokka árið 2016.

Hvað gerist við beitingu þeirra laga sem þetta frumvarp felur í sér? Hvernig verða lögin túlkuð? Er svigrúm til að túlka þau á enn meira íþyngjandi hátt en ákvæðið sjálft er orðað? Þetta eru hlutir sem ríkisstjórnin þarf að taka til greina, sem ríkisstjórnin þarf að taka til skoðunar, og það er m.a. gert með því að taka athugasemd Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands alvarlega, sem hún kom á framfæri í umsögn sinni. Ég mun ekki sigla undir fölsku flaggi ríkisstjórnarinnar um að það ríki sátt þvert á flokka við gildistöku þessara laga ef þetta frumvarp verður samþykkt sem lög.

Hæstv. forsætisráðherra nefndi á síðasta löggjafarþingi, þegar ég fór í óundirbúnar fyrirspurnir við hana varðandi útlendingalögin, að núverandi útlendingalög væru bara frábær og þau hefðu verið samþykkt í sátt árið 2016. Samt sér ríkisstjórnin tilefni til að umbylta þessum málaflokki með nýju frumvarpi sem ríkir svo sannarlega ekki sátt um. Það að nokkrir þingflokkar séu með alvarlegar athugasemdir við þetta frumvarp og að ríkisstjórnin kjósi að hunsa þetta er náttúrlega grafalvarlegt mál út af fyrir sig.

Það að Mannréttindastofnun Háskóla Íslands geri athugasemdir í umsögn sinni við frumvarpið og lýsi yfir áhyggjum um að möguleiki sé á því að ákvæði frumvarpsins samræmist ekki stjórnarskrá er grafalvarlegt mál. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands segir, og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir las þetta líka upp en ég ætla að ítreka það sem hv. þingmaður sagði og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hefur sagt í umsögn sinni af því að það er ekki lögð nógu mikla áherslu á þetta. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Hvorki virðist vísað til ákvæða stjórnarskrár né mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) í athugasemdunum. Verður að telja þetta afar óheppilegt. Efni frumvarpsins varðar með augljósum hætti mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Til dæmis: brottfall þjónustu (6. gr.) varðar 1. mgr. 76. gr. stjskr. og 65. gr. stjskr., breyttar reglur um endursendingar varða 68. gr. stjskr. og 3. gr. MSE, sbr. ítarlega dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins, sérákvæði um börn varða 3. mgr. 76. gr. stjskr., framkvæmd ákvarðana varða 71. stjskr. og 8. gr. MSE og eftir atvikum 68. gr. stjskr. og 3. gr. MSE og ýmis útfærsluatriði á málsmeðferð kunna að varða 70. gr. stjskr. og 6. og 13. gr. MSE hvað varðar rétt til aðgangs að dómstólum, réttláta málsmeðferð og rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns. Óhjákvæmilegt er að löggjafinn taki skýra afstöðu, að undangengnu efnislegu mati, til þess hvort skilyrðum stjórnarskrárákvæða sé fullnægt.“

Virðulegi forseti. Þetta eru ekki fá ákvæði sem Mannréttindastofnun Háskóla Íslands telur upp. Þetta eru ekki bara ákvæði stjórnarskrárinnar heldur líka ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland hefur lögfest hér á landi og skuldbundið sig til að framfylgja og hefur innleitt í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Hvers konar ríkisstjórn ætlar að loka augunum fyrir því og ekki einu sinni athuga hvort einstaka ákvæði í almennum lögum samræmist stjórnarskrá? Þarf ég virkilega að fara í gegnum rétthæðina fyrir núverandi ríkisstjórn? Ég geri mér ekki grein fyrir þessari afstöðu, ég geri mér ekki grein fyrir þessari frekju í dómsmálaráðherra um að þröngva þessum lögum í gegn. Ég veit ekki hvert endamarkmiðið er. Vill þessi ríkisstjórn, ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, vera þekkt sem ríkisstjórnin sem þröngvaði lögum í gegn þvert á áhyggjur umsagnaraðila og fulltrúa á löggjafarþingi Íslands sem leiddi til þess að lögfest voru ákvæði sem samræmast ekki stjórnarskrá? Ég þarf ekki að fara út í þá sálma að það er rosalega alvarlegt að taka ekki til greina athugasemdir og ræður þingmanna, enda eru þær líka hluti af lögskýringargögnum sem verður litið til þegar kemur að beitingu og túlkun laganna. Ég veit ekki hvaða þróun þetta er hér á Alþingi Íslendinga um að framkvæmdarvaldið fái bara að þröngva einhverjum lögum í gegn án þess að taka til greina skoðanir, athugasemdir og áhyggjur löggjafarvaldsins, áhyggjur þingmanna. En kannski er þetta bara það sem gerist þegar löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið verður að einu batteríi og enginn aðskilnaður er þar. Það er náttúrlega annað sem samræmist ekki beint stjórnarskrá, jafnvel þótt það sé venjuhelguð stjórnskipunarvenja, en við þurfum ekki að fara út í það núna. Er þetta virkilega það sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vill skilja eftir sig, ríkisstjórn sem kom lögum sem eru andstæð stjórnarskrá í gegn í einhverju þrjósku- og frekjukasti?

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á áðan talar ríkisstjórnin, og þá hæstv. forsætisráðherra, mjög oft um það, þegar það hentar henni, að það sé ekkert að lögunum og að þessi lög hafi verið samþykkt í þverpólitískri sátt. Hæstv. forsætisráðherra hefur rétt fyrir sér. Það þarf ekki lagabreytingar. Það er ekkert að núverandi lagabálki. Það sem þarf að laga og það sem þarf að bæta er kerfið. Það þarf að auka skilvirknina er kemur að móttöku flóttafólks og fólks í neyð. Það þarf að byggja upp innviði sem munu nýtast bæði Íslendingum og fólki sem hingað leitar í neyð og ég velti fyrir mér: Hvað er planið hjá ríkisstjórninni? Af því að það liggur alveg skýrt fyrir að á næstu árum og áratugum, það er gjörsamlega óumflýjanlegt, að fólksflutningar munu aukast á milli landa vegna aukinna áhrifa loftslagsbreytinga og loftslagsáhrifa. Við munum þurfa og neyðast til að byggja upp innviði okkar enn betur á endanum en það mun þá náttúrlega bara vera undir minni kynslóð komið þegar við tökum loksins við keflinu og þurfum að moka upp skítinn eftir núverandi ráðamenn. Við munum þurfa að snúa þessum áhrifum við sem núverandi ráðamenn, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim, eru ekki að taka nógu alvarlega.

En kjarni málsins er sá að félagsþjónustan, heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið, húsnæðiskerfið og menntakerfið eru ekki hlutir sem íslenska ríkisstjórnin myndi byggja meira upp einungis í þágu flóttafólks og útlendinga heldur myndi það fyrst og fremst bæta lífsgæði Íslendinga sem hér fæðast og alast upp og búa hér. Þetta snýst ekki bara um fólk á flótta, snýst ekki bara um skilvirka móttöku flóttafólks. Þetta snýst líka um lífsgæði Íslendinga sem hér búa nú þegar. Síðan getum við líka tekið samtalið um að hér vantar almennt séð fólk. Það er ákall um að flytja inn fólk til þess að geta unnið. Fólk sem hingað leitar í neyð er oft hámenntað fólk með háskólagráður og dýrmæta reynslu af starfi sem fæst einfaldlega ekki hér á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn talar um að skapa verðmæti. En hvað er verðmætara en fólk? Fólkið er grunnstoð verðmætasköpunarinnar sem þessi flokkur talar fyrir og ég skil því hreinlega ekki þessa afstöðu flokksins gagnvart því að hleypa fólki inn og veita því atvinnuleyfi og leyfa því að gefa af sér aftur til samfélagsins.

Síðan er ég líka búin að vera að fylgjast með þessu máli í fréttum áður en ég tók sæti hér á þingi í dag. Ég sá að það er verið að vísa málinu aftur í nefnd. Síðan velti ég bara fyrir mér: Hver er ætlun meiri hlutans með að vísa málinu aftur í nefnd á milli 2. og 3. umr.? Munu þau taka þessar ábendingar til skoðunar sem hafa komið fram af hálfu þingmanna í 2. umr., t.d. um þrengingu á ákvæðum sem varða endurupptöku máls eins og kveðið er á um í 3. og 7. gr. frumvarpsins? Þær greinar eru verulega íþyngjandi. En ég þarf ekkert að tala um það, enda hefur það margoft komið fram í málflutningi þingmanna í 2. umr. og auðvitað líka í nefnd þegar þetta mál hefur verið í umfjöllun þar.

Ég þarf heldur ekki að tala um að rétturinn um endurupptöku er nú þegar mjög þröngur og er til staðar í almennum stjórnsýslulögum. Hvaða tilhneiging dómsmálaráðherra er þetta eiginlega að koma á fót sérreglum sem eru nú þegar til staðar í viðeigandi lagabálkum? Ef einstaklingi er synjað um vernd er það stjórnvaldsákvörðun. Ég veit það ekki, ég sé ekki betur en að ég þurfi að fara í gegnum meginreglur stjórnsýslulaga fyrir dómsmálaráðherra í þessari ræðu minni. Ég held að ég þurfi að fara í gegnum skilyrðin fyrir því að eitthvað teljist vera stjórnvald, bara svona til þess að það rifjist upp og til þess að ítreka það að þessar endurupptökuheimildir eða þrenging á þeim heimildum eigi ekki að vera til staðar í lögum um útlendinga. Til þess að eitthvað geti talist vera stjórnvald þarf að uppfylla nokkur skilyrði. Því þarf í fyrsta lagi að koma á fót með lögum. Er það rekið fyrir almannafé? Hefur þetta lögbundin markmið í þágu almennings og er þetta í stjórnsýslusambandi við önnur stjórnvöld? Meiri hlutinn má bara gera það sem hann vill við þessar upplýsingar.

Síðan getum við líka farið út í það hvort einhver ákvörðun teljist vera stjórnvaldsákvörðun. Grunndæmið er að ef þetta er einhliða ákvörðun, tekin í skjóli stjórnsýsluvalds sem beinist út á við og fjallar um rétt eða skyldur manna — og ég myndi segja að það að synja einstaklingi um vernd falli undir þessa skilgreiningu og teljist vera stjórnvaldsákvörðun og því eru fullnægjandi heimildir hvað varðar endurupptöku til staðar í stjórnsýslulögum sem voru settar á fót árið 1993 og virka fullkomlega vel í framkvæmd. Það þarf ekkert að breyta þessu.

Síðan ætla ég að taka annað dæmi til að skýra þetta aðeins betur. Ef Háskóli Íslands veitir einkunn í prófi þá telst það vera stjórnvaldsákvörðun. Þetta eru svona litlir hlutir sem gleymast kannski stundum við það að semja eitthvert frumvarp þar sem núverandi lög eru nú þegar fín en það þarf bara að umbylta öllum málaflokknum. Þess vegna skil ég hreinlega ekki þessa tilhneigingu ríkisstjórnarinnar.

Síðan langar mig líka að tala um það að þær heimildir sem þetta frumvarp felur í sér eru ekki að auka skilvirknina í þessu kerfi, forseti. Þetta er ekkert að stuðla að einhverjum stórtækum breytingum sem mjög margir eru sammála um að þurfi að eiga sér stað þegar kemur að móttöku flóttafólks. Það liggur alveg skýrt fyrir að við getum gert miklu betur í þessum efnum. Við getum bætt okkur alveg rosalega mikið þegar kemur að því að veita þessu fólki vernd og mannsæmandi lífskjör. Við erum einfaldlega ekki að standa okkur í því en þá bara förum við aftur í það að byggja upp innviði. Fyrir mér er þetta frekar klippt og skorið, þar liggur svarið, ekki með því að vera að breyta lögum sem ríkir þverpólitísk sátt um. Og eins og ég segi, núverandi lög eru fín, eru vel orðuð. En það er náttúrlega undir hverjum og einum komið hvernig lögin eru túlkuð og þess vegna hef ég líka verulegar áhyggjur af því hvernig ákvæði þessa frumvarps sem dómsmálaráðherra hefur lagt fram um útlendinga verða túlkuð ef þau skyldu verða samþykkt. Verða þau túlkuð á enn meira íþyngjandi hátt en ákvæðið er orðað? Af því að orðalag ákvæðanna er frekar íþyngjandi. Þetta er bara meginregla þegar kemur að því að samþykkja lög á Alþingi. Ég tel að hlutverk löggjafans felist í því að við sjáum að einhverju leyti fyrir okkur hvernig þessum lögum verði beitt í framkvæmd og hvernig það er mögulegt að túlka lögin, af því að eins og ég segi þá er þetta hlutverk okkar hér á löggjafarþingi Íslands, að semja lög, að skoða lögin, að ræða lögin í þaula. Þess vegna er ég þakklát fyrir tækifærið til að koma hingað upp í pontu á Alþingi Íslendinga og ræða þennan lagabálk sem virðist bara alls ekki ríkja sátt um og ríkisstjórnin ætlar í alvöru talað að leyfa þessar athugasemdir sem hafa komið fram af hálfu þingmanna, áhyggjur sem hafa komið fram af hálfu þingmanna og áhyggjur sem hafa komið fram af hálfu viðeigandi aðila sem hafa sent umsagnir og gert athugasemdir við þetta frumvarp, af því að ég sé þetta þannig að jafnvel þó að stjórnarandstaðan sé stjórnarandstaða þá erum við samt hluti af löggjafarvaldi Íslands og það ber að taka áhyggjur og ábendingar löggjafarvaldsins alvarlega. Það ber að hlusta á þær, ber að skoða þessar athugasemdir sem við erum að gera hér inni í þingsal í 2. umr. áður en það verður of seint því það er ekki eins lítið mál og ríkisstjórnin heldur að taka lög til baka og breyta þeim ef það kemur síðan í ljós að þau voru ekki samræmanleg stjórnarskrá.

Síðan er ég að velta fyrir mér: Hvað ætlar þessi ríkisstjórn að skilja eftir sig? Ætla þau að vera ríkisstjórnin sem tók sér meiri hluta í öllum nefndum, tók sér nefndarformennsku í öllum nefndum nema einni, sem hlustaði ekki á þingmenn, sem minnkaði tæki og tól sem stjórnarandstaðan getur nýtt sér? Því að hér erum við inni í þingsal að nota þau tæki og tól sem við höfum af því það er ekki margt annað sem ríkisstjórnin hefur skilið okkur eftir með, sem er náttúrlega bagalegt. Ég vona að næsta ríkisstjórn sem tekur við muni ekki gera sömu mistök enda er þetta bara — kannski ekki brot á lýðræði en þetta er ámælisvert. Ætlar þessi ríkisstjórn að vera ríkisstjórnin sem fékk rassskellingu frá Mannréttindadómstól Evrópu fyrir að fara ekki eftir kosningalögum? Það er margt sem þessi ríkisstjórn mun skilja eftir sig. En í guðanna bænum, þið getið forðast að vera eftirminnilega ríkisstjórnin sem þröngvaði lögum í gegn sem voru ófullnægjandi, sem voru illa unnin og sem samræmast ekki stjórnarskrá. Eins og ég segi, ég þarf ekkert að fara í gegnum rétthæðina og tala um hvaða lög vega þyngst og allt það. Ég þarf ekki að fara út í sálma „lex superior“ akkúrat núna. Ég átta mig eiginlega ekki á því á hvaða vegferð þessi ríkisstjórn er á og sér í lagi hæstv. dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, af því að þetta virðist vera þannig fyrir mér að hann sé bara á einhverri vegferð og í einhverju þrjósku- og frekjukasti um að ná þessum lögum í gegn alveg sama hvað allir segja. Þær athugasemdir sem koma fram af hálfu stjórnarandstöðuþingmanna eru bara hunsaðar eins og þetta sé bara eitthvert ómerkilegt þvaður, eins og við vitum ekkert hvað við erum að gera, eins og við séum ekki líka þingmenn, eins og við séum ekki líka hluti af löggjafarvaldinu. Ég held að þetta muni ekki gera neitt gagn en ég ætla bara að hvetja hæstv. dómsmálaráðherra eindregið til þess að taka til greina athugasemdir og áhyggjur sem hafa komið fram af hálfu margra, ekki bara þingmanna heldur líka fólks úti í samfélaginu því að við erum fyrst og fremst að vinna fyrir fólkið sem kaus okkur.

Ég næ ekki að fara yfir meira í bili og mun gera það í næstu ræðu minni.