Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Aðeins um hvers vegna við teljum að þetta mál brjóti í bága við stjórnarskrá, hvers vegna við förum hér í ræðu eftir ræðu til þess að reyna að útskýra fyrir meiri hlutanum að það sé lýðræðisleg skylda hans að kalla þetta mál inn í nefnd og gera á því þær lagfæringar sem þarf að gera til að það standist stjórnarskrá. Þá vil ég aftur vísa í umsögnina sem kom frá Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Eins og ljóst er af þeirri umsögn er algerlega ótækt að ekki hafi þótt tilefni til, að dómsmálaráðuneyti Íslands hafi ekki þótt tilefni til þess, að kanna hvort frumvarpið standist stjórnarskrá þegar það er augljóst að það snertir stjórnarskrárvarin réttindi útlendinga. Ótrúlegt en satt hafa útlendingar líka stjórnarskrárvarin réttindi á Íslandi.

Mannréttindastofnunin bendir á að það sé mjög óheppilegt að hvorki sé vísað til ákvæða stjórnarskrár né mannréttindasáttmála Evrópu í greinargerð með frumvarpinu. Efni frumvarpsins varði einmitt, eins og ég var að segja, með augljósum hætti mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd, t.d. þetta margumrædda ákvæði um brottfall þjónustu. Það varðar 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um rétt til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku og annars. Það varðar líka jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, 65. gr. stjórnarskrárinnar, um að allir skuli jafnir fyrir lögum. Breyttar reglur um endursendingar, að það sé hægt að senda fólk til einhvers ríkis, eða að það sé alla vega verið að setja inn ákvæði um að það eigi að vera hægt að senda fólk til einhvers ríkis þar sem það hefur ekki dvalarleyfi og þar sem enginn móttökusamningur er í gildi, þar sem viðkomandi hefur enga vernd fengið þótt Útlendingastofnun finnist að viðkomandi eigi kannski að fá vernd einhvers staðar, í landi sem við erum ekki með neitt samkomulag við — það ákvæði varðar 68. gr. stjórnarskrárinnar um bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og auðvitað 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem er sama efnis. Sérákvæði í frumvarpinu um börn varðar 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar en þar kemur fram að börnum skuli tryggð vernd í lögum sem velferð þeirra krefst.

Við hvöttum áðan hæstv. mennta- og barnamálaráðherra, Ásmund Einar Daðason, sem við sáum að var hér í húsi, til þess að taka þátt í umræðunni og svara fyrir þær ítarlegu ábendingar sem komið hafa fram frá mannréttindasamtökum sem berjast fyrir réttindum barna, eins og Barnaheillum og UNICEF t.d., um þau gríðarlega neikvæðu og alvarlegu áhrif sem samþykkt þessa frumvarps mun hafa á réttindi barna, en hann hefur ekki sést hér frá því að hann greiddi atkvæði um að lengja þennan þingfund. Svo stakk hann af, hæstv. barnamálaráðherra. Það er auðvitað miður vegna þess að ég hefði mjög gjarnan viljað heyra sjónarmið hans um þetta mál en hann hefur ekki fengist til að svara fyrir afstöðu sína með neinum skýrum hætti gagnvart þessu máli. Mér þykir það mjög miður að ráðherra, sem gerði sérstaklega út á vernd réttinda barna í kosningabaráttu sinni, hafi ekki fundið kjark til þess að taka þátt í umræðu sem hefur bein áhrif á réttindi barna á Íslandi, bein og mjög neikvæð áhrif á réttindi barna á Íslandi, og einmitt stjórnarskrárvarin réttindi barna á Íslandi. Hvers vegna er hann ekki hér að ræða þetta við okkur? Hvers vegna er hann ekki hér að útskýra fyrir okkur, sem höfum áhyggjur af þessu, hvað hann ætli að gera til að tryggja að réttindi barna séu virt í hvívetna? Ég spyr en ég sé ekki að það sé neitt svar.