Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:24]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég var hér í minni síðustu ræðu, fyrir einhverjum mínútum síðan, að lesa punkta úr grein sem heitir „Frumvarp um mannréttindabrot“ sem birtist á Vísi þann 9. janúar 2023 og er skrifuð af Gunnari Hlyni Ólafssyni sem er í stjórn háskóladeildar Amnesty á Íslandi. Þar var höfundur búinn að benda á nokkur bein og hrein og klár brot sem meira að segja er búið að dæma fyrir Mannréttindadómstól Evrópu að séu brot en stjórnarmeirihlutinn, og sér í lagi þá Sjálfstæðisflokkurinn, virðist ekki hafa áhyggjur af því þó að verið sé að brjóta slíka samninga eða brjóta gegn stjórnarskrá.

Mig langar að halda aðeins áfram að lesa upp úr þessari góðu grein þar sem Gunnar Hlynur kemst jafnvel betur að orði um suma af þessum hlutum en ég gæti sjálfur. Þá langar mig að byrja aftur, með leyfi forseta:

„Fleiri breytingar eru lagðar til í frumvarpinu sem hafa það eingöngu að markmiði að skerða mannréttindi flóttafólks, þar á meðal að takmarka tímann sem þau hafa til að kynna sér gögn Útlendingastofnunar áður en málið fer til kærunefndar útlendingamála, takmarka réttinn til fjölskyldusameiningar og gera lögreglu kleift að afla læknisfræðilegra gagna án samþykkis. Allt eru þetta varhugaverðar tillögur sem virðast stangast á við mannréttindaákvæði stjórnarskrár Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu, helst hvað varðar friðhelgi einkalífsins og réttinn til réttlátrar málsmeðferðar.“

Höfundur heldur áfram:

„En ekki taka mitt orð fyrir því. Lestu frekar umsagnir sem hafa borist frá samtökum á borð við:

UNICEF“ — Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna — „sem sagði það vera ljóst að „stjórnvöld lögðu ekki mat á það sem barni er fyrir bestu við mótun þessarar tillögu að lagabreytingu“,

Solaris sem sagði frumvarpið vera „birtingarmynd kerfisbundins rasisma á Íslandi“,“ — ég ætla að fá að skjóta hérna inn: Það þýðir kynþáttahatur á íslensku. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Amnesty International á Íslandi sem bendir á nokkra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að og breytingartillagan kemur til með að fara gegn,

Rauða krossinn sem gaf út 28 blaðsíðna umsögn um frumvarpið og nefnir meðal annars að ljóst sé að „markmiðið með því að skylda einstaklinga í líkamsrannsókn og/eða heilbrigðisskoðun fellur ekki undir þau markmið sem stjórnarskrá og mannréttindasáttmáli Evrópu telja lögmæt,

Barnaheill sem telur að verði frumvarpið að lögum þá munu „Óbein áhrif á börn [koma] fram í almennt verri lífsskilyrðum fyrir börn af margvíslegum ástæðum“,

Læknafélag Íslands sem telur frumvarpið „ekki samræmast þeim siðareglum sem læknar starfa eftir.““

Já, það er alveg ótrúlegt að ekki sé hlustað á neitt af þessu. En mig langar að nota lokaorð Gunnars Hlyns sem lokaorð minnar ræðu hér, með leyfi forseta:

„Langi þig, kæri lesandi, ekki að verða þvingaður af lögreglunni í læknisrannsókn, hent á götuna, sviptur allri framfærslu og látið lögregluna grugga í persónuupplýsingum þínum allt á meðan verið er að takmarka rétt þinn til að leita réttar þíns í dómskerfinu, þá ættir þú að setja þig gegn frumvarpinu með mér. Og sért þú einn af þeim sem hrópar húrra yfir því að flóttafólk sé sent úr landi í stórum stíl ættir þú einnig að berjast gegn frumvarpinu með mér, (Forseti hringir.) því ég stórlega efast um að þú viljir að vandamálið þróist í enn meiri fjölgun heimilislausra hér á landi með tilheyrandi þyngslum á heilbrigðis- og efnahagskerfið.“

Ég óska eftir því, (Forseti hringir.) frú forseti, að vera settur aftur á mælendaskrá.