Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Enn held ég áfram að fjalla um fyrirspurnarunu til hæstv. dómsmálaráðherra og bráðlega hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi þvingaðar brottvísanir og það hvernig þvingaðri lyfjagjöf er beitt til að liðka fyrir þeim brottvísunum. Ástæðan fyrir því að mig langar að leggja svona mikla áherslu á þetta atriði er að það varpar ljósi á þá afstöðu sem — ég veit ekki hvort sé hægt að segja dómsmálaráðherra, Útlendingastofnun, ég held að það sé erfitt að setja fingur á nákvæmlega hvaða staður, hvaða einstaklingur það er, en bara þá afstöðu sem kerfið hefur til þessa hóps sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd og sem kemur svo bersýnilega í ljós þegar við sjáum hvaða meðulum kerfið er tilbúið til að beita til þess að losna við það fólk úr landi, vegna þess að þetta fólk er ekki hátt skrifað hjá kerfinu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sér í lagi þau sem njóta meintrar verndar í Grikklandi, eru ekki fólk sem stjórnvöld vilja eyða allt of miklu púðri í að annast og passa upp á.

Svo ég reki örstutt hvernig þessi hali er orðinn þá spurði ég dómsmálaráðherra fyrst hvaða þvingunarúrræðum hefði verið beitt gagnvart einstaklingum þegar þeir eru fluttir úr landi með aðstoð lögreglu og sérstaklega bað ég um upplýsingar varðandi það hvort fólki hafi verið gefin lyf gegn vilja þess í þeim tilgangi að auðvelda brottvísun. Þessum seinni lið svaraði ráðherrann ekki þannig að ég spurði bara aftur nákvæmlega um þetta og ekkert annað og fékk þá það svar að einstaklingum hefðu ekki verið gefin lyf gegn vilja þeirra í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísun en hins vegar hefðu einstaklingum alveg verið gefin lyf til að róa þá og svo hefði þeim verið brottvísað. Þarna er ákveðinn útúrsnúningur í gangi. Ráðherrann er augljóslega að hengja sig á mjög þröngt orðalag spurningarinnar til að þurfa ekki að svara því að þarna sé augljóslega verið að gefa fólki lyf sem hjálpi yfirvöldum síðan að brottvísa viðkomandi. Núna í haust spurði ég ráðherra á hvaða lagaheimild þessi þvingaða lyfjagjöf byggði og fékk það svar að ráðherrann ætlaði ekkert að svara því vegna þess að heilbrigðisráðherra bæri ábyrgð á þessum óskapnaði. Ég tek það fram, forseti, að óskapnaður er mitt orð, ekki dómsmálaráðherra. Ég held að hann sé mjög sáttur við þessa framkvæmd. Vegna þess að dómsmálaráðherra hendir þessari heitu kartöflu til hæstv. heilbrigðisráðherra þá er ég með í vinnslu fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um hans þátt í þessari framkvæmd og ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég hlakka ekki mikið til að sjá svörin af því að ég held að þau verði ekki falleg, að þau muni ekki bera íslenska velferðarsamfélaginu fagurt vitni.

Í fyrsta lagi langar mig að spyrja heilbrigðisráðherra á hvaða lagaheimild þvinguð lyfjagjöf við handtöku umsækjenda um alþjóðlega vernd byggi og hvaða verklag gildi um þá framkvæmd. Þar er ég náttúrlega hræddastur um að þessi blessaði trúnaðarlæknir Útlendingastofnunar sé kannski einhvers staðar að fara dúkka upp, sami aðili og landlæknir benti á að hefði brotið lög þegar hann skrifaði upp á flugfærnivottorð fyrir kasólétta albanska konu sem sparkað var úr landi.

Svo langar mig að fá að vita frá heilbrigðisráðherra hversu oft slíkri þvingaðri lyfjagjöf hafi verið beitt á hverju ári undanfarin fimm ár og líka hversu oft einstaklingar séu enn undir áhrifum þeirra lyfja þegar brottvísunin er framkvæmd. Þessi útúrsnúningur dómsmálaráðherra um það hvort lyfjagjöfin sé í þeim tilgangi að auðvelda framkvæmd brottvísunar — það er kannski hægt að fá þetta bara betur á hreint með því að spyrja: Hversu mörgum er brottvísað undir áhrifum þeirra róandi lyfja sem neytt er í þau?

Síðan er það stóra spurningin um ábyrgðina, forseti. Hver ákveður að beita skuli þvingaðri lyfjagjöf, hver framkvæmir hana og hver ber síðan ábyrgð á að meta hvort lagaskilyrði séu uppfyllt? (Forseti hringir.) Með þetta síðasta atriði óttast ég að svarið verði: Það er enginn að passa upp á það. (Forseti hringir.) Vegna þess eins og við sjáum á þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) eru mannréttindi þessa hóps bara ekki mikið virt.