Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:46]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Í þessari ræðu langar mig að fjalla aðeins um þá umsögn sem Kvenréttindafélag Íslands sendi inn en við Íslendingar höfum lengi státað af því að vera land þar sem jafnrétti kynjanna er hvað best í heiminum. Seinna í mánuðinum verða 100 ár liðin frá því að fyrsta konan tók sæti á Alþingi og kannski vert að við hlustum á þau samtök sem hafa barist síðan 1907, ef ég sé rétt, fyrir réttindum kvenna. Mig langar að fjalla aðeins um umsögn þeirra og það sem kemur fram hjá þeim og ég hvet þá sem hlusta til að lesa ítarlega útgáfu umsagnarinnar. Ef við byrjum á því að koma með helstu atriðin sem samtökin benda á og gagnrýna þá er það í fyrsta lagi að enn hafi ekki verið framkvæmt nægilegt jafnréttismat og að frumvarpið hunsi þau ólíku áhrif sem slíkar lagabreytingar hafa á stöðu kynjanna. Fyrst ég er að lesa þetta nokkuð beint er kannski best að ég fá leyfi forseta til þess. Það heldur áfram, með leyfi forseta:

„Ekki er tekið tillit til sérstakrar stöðu kvenna eða annarra jaðarhópa. Ekki hefur verið haft sérstakt samráð við fagaðila við vinnslu þessa frumvarps, eins og bent var á í sameiginlegri áskorun 15 félagasamtaka á Íslandi þann 19. maí 2022.“

Ég sé fram á að ég muni ekki komast í gegnum öll þessi atriði í þessari ræðu en mig langar að byrja á að ræða skortinn á jafnréttismati. Það er ákveðin aðferðafræði sem hefur verið innleidd í löggjöf á Íslandi og lagasetningu á Íslandi og í umsögninni stendur, með leyfi forseta:

„Í 1. grein jafnréttislaga, nr. 150/2020, segir að jafna eigi stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins með því að „gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins“. Þetta þýðir m.a. að við alla áætlanagerð, stefnumótun og gerð lagafrumvarpa þurfi að taka til greina ólíkra stöðu kynjanna og móta verkefni þannig að þau auki réttlæti og kynjajafnrétti.“

Hér langar mig að koma með innskot, frú forseti. Það er nefnilega þannig að kynin upplifa ekki hlutina eins. Sumir hlutir hafa meiri áhrif á konur en karla og öfugt. Það er líka þannig að konur verða t.d. oftar fyrir ákveðnum brotum á réttindum sínum. Við höfum séð það t.d. í því hversu miklu algengara er að konur verði fyrir kynferðisbrotum en karlar. Það sem þessari 1. gr. jafnréttislaganna er ætlað að gera er að tryggja að þegar við, löggjafinn, setjum lög þá séum við að horfa til þessara atriða, til þessa mismunar, og passa það að lögin sem við setjum taki tillit til þessara atriða.

Eins og ég mun þurfa að fara yfir í næstu ræðu minni þá skiptir þetta máli og ég bið frú forseta um að fá að komast aftur á mælendaskrá þar sem ég sé að tími minn er því miður á þrotum, enda allt of stuttur tími. En við þurfum að laga það í þingskapalögum en ekki hér í ræðustól akkúrat núna.