Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:02]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Það er erfitt að koma á eftir góðri ræðu þar sem við vorum minnt á það af hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur hvers vegna við þurfum að berjast fyrir mannréttindum. Meðal þeirra mannréttinda sem við þurfum að berjast fyrir er einmitt jafnrétti, að við séum jöfn óháð kyni. Þess vegna langar mig að halda áfram að fjalla um umsögn Kvenréttindafélags Íslands og þessi atriði sem það var að benda á; að það væri skortur á jafnréttismati þegar kæmi að þessu frumvarpi og hvernig öll frumvörp ættu að skoða hlutina út frá jafnrétti.

Í umsögninni stendur, með leyfi forseta:

„Í handbók Jafnréttisstofu, Jafnréttismat, frá árinu 2014 er að finna gátlista til að greina hvort þörf sé á jafnréttismati á frumvörpum. Þar er fyrst spurt hvort að lögin muni koma til með að hafa „áhrif á líf fólks“ og hvort að „munur sé á stöðu karla og kvenna í málaflokknum“. Enn fremur samþykkti ríkisstjórn þann 26. október 2018 fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð þar sem hverju ráðuneyti er gert skylt framkvæma jafnréttismat á öllum frumvörpum „sem falla undir það viðmið að vera með mikil eða meðal kynjaáhrif.“

Kvenréttindafélag Íslands tekur það fram að lög um útlendinga og lög um atvinnuréttindi útlendinga hafi ólík áhrif á kynin, rétt eins og önnur löggjöf um atvinnuréttindi hafi ólík áhrif á kynin. Allar breytingar á löggjöf sem þessari, sem skilyrðir rétt fólks til að dvelja og lifa hér á landi, hafa í eðli sínu djúpstæð áhrif á grundvallarréttarstöðu fólks á Íslandi. Því eykst byrði stjórnvalda að framkvæma ítarlega greiningu á áhrifum frumvarpsins á allt fólk sem fellur undir lögin, þar á meðal á ólíkum áhrifum frumvarpsins á öll kyn.“

Forseti. Það er alveg svart á hvítu, hvort sem við viljum fylgja jafnréttishandbókinni eða stefnu ríkisstjórnarinnar, að það er skylda að framkvæma jafnréttismat og það er skylda að tryggja að horft sé til þessara mismunandi áhrifa frumvarpsins á kynin. Eins og Kvenréttindafélag Íslands bendir á þá er þetta ekki gert. Það er erfitt að lesa svona og þá hugsar maður: Af hverju ekki? Af hverju er ekkert horft á þetta af ríkisstjórn sem státar sig af því að vera ríkisstjórn jafnréttis?

Mig langar að halda hér aðeins áfram meðan ég hef tíma og með leyfi forseta held ég áfram að lesa upp úr umsögn Kvenréttindafélagsins:

„Í gildandi stjórnarsáttmála kemur fram að jafnrétti kynjanna sé mikilvægur þáttur í heilbrigðu samfélagi og verði áfram forgangsmál. Stjórnarsáttmálinn segir enn fremur að auk aðgerða á vinnumarkaði til að draga úr kynbundnum launamun verði jafnréttismál ávallt í forgrunni við ákvarðanatöku. Kvenréttindafélag Íslands telur þetta frumvarp stangast á við þessi sjónarmið stjórnarsáttmálans og krefst því að jafnréttissjónarmið verði höfð í hávegum þegar viðkemur málum allra í samfélaginu, ekki síst þegar kemur að stöðu útlendinga á Íslandi.“

Ég sé það, forseti, að ég þarf meiri tíma til að fjalla um jafnrétti og þetta frumvarp og óska því eftir að vera settur aftur á mælendaskrá.