Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það var áhugaverð umræða hérna fyrr í dag um þessa umræðu, en þar var fjármálaráðherra misboðið. Skrýtið ástand sem fjármálaráðherra er í, að vera misboðið þegar við erum með mál hérna sem er með 20 neikvæðar umsagnir frá mjög virtum félagasamtökum og að það megi ekki fjalla um þær, fjalla um það hvernig ríkisstjórnarflokkarnir drífa málið út í þingsal án þess að taka tillit til þeirra atriða sem komið hafa fram.

Við þurfum að átta okkur á því að þau rök sem komu fram hjá fjármálaráðherra voru að það væri einhvern veginn meiri hluti fyrir þessu máli og þar af leiðandi mættu þau bara gera hvað sem er. Það virkar auðvitað ekki þannig. Lýðræði og meirihlutavald virkar ekki þannig. Við þurfum jafnvægi og taka þarf tillit til minnihlutahópa. Við þurfum að passa upp á að meiri hlutinn fari vel með vald sitt. Í þessu tilviki veður meiri hlutinn einmitt inn í þingsal með mjög vanreifað mál og hefur viðurkennt það sjálfur. Ýmsir stjórnarþingmenn hafa viðurkennt að það þurfi að gera breytingar, en hvaða breytingar það eru — það er verið að fela það. Þing eða þjóð er ekki upplýst um það. Þá segja þau: Allt í lagi, við tökum málið inn eftir 2. umr., milli 2. og 3. umr., og lögum það þá. Er það ekki allt í lagi? Nei, það er ekki allt í lagi. Af hverju er það ekki allt í lagi? Af því að sú nefndarvinna sem þarf að fara fram tekur ákveðinn tíma og það skiptir ekki máli hvað tímann varðar hvort hún sé unnin núna eða seinna en það skiptir máli hvað umræðuna varðar. Ef við klárum 2. umr. hérna og málið fer síðan í nefnd þar sem gerðar verða sömu breytingar og dómsmálaráðherra vill að verði gerðar, í raun engar, þá er óboðlegt að málið sé klárað hérna. Eigum við að gera breytingartillögurnar sem þingmenn Vinstri grænna eða ráðherrar hafa sagt að þurfi að gera? Við vitum ekki hverjar þær eru þannig að við getum ekki sagt það.

Ef málið fer inn á milli 2. og 3. umr. þá höfum við ekki tíma til þess að ræða annaðhvort þær breytingar eða breytingar sem þau hyggjast gera eða fyrir umræðu um það hvers vegna við ætlum ekki að breyta frumvarpinu miðað við allar þessar neikvæðu umsagnir. Eina tækifæri minni hlutans, eini staðurinn í öllu ferlinu á Alþingi til þess að segja: Bíddu, fyrirgefið. Nú eruð þið að fara aðeins of hratt, er í 2. umr. hérna í þingsal. Meiri hlutinn ræður öllu öðru, ekki bara 55% eða hvaða hluta sem það er, heldur 100%. Meiri hlutinn ákveður að það sé þetta mál sem er fremst á dagskrá og segir: Þið eruð að tefja öll málin sem eru síðar á dagskrá, þegar hið sanna er að hægt væri að setja þau mál á undan. Þá er ekki verið að tefja neitt mál, ekki eitt.

En nei, svona fara þau með meirihlutavaldið. Þegar þau ákveða að þetta sé mál sem skuli klárað: Við ætlum bara að gera það svona sama hvað tautar og raular, þá er fjármálaráðherra bara misboðið þegar við segjum: Heyrðu, þetta er dálítið gallað hérna. Við erum meira að segja með fullt af dæmum um að meiri hlutinn hafi haft rangt fyrir sér. Dæmi hefur verið tekið um afturvirku skerðingarnar sem enduðu í einhverjum 8 milljörðum, eða eitthvað svoleiðis, í greiðslur fyrir eldri borgara út af réttindum sem voru tekin af þeim. Ýmislegt, eins og ég fer kannski yfir seinna, sem dómsmálaráðherra hefur sagt um þetta mál er bara rangt. Af hverju ættum við þá að treysta dómsmálaráðherra fyrir því að fara með málið lengra áður en lagt er á borðið fyrir þing og þjóð hvað eigi að gera til að koma til móts við umsagnir?