Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:46]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég er bara rétt að byrja. Það er mjög margt sem er hægt að fara yfir hvað varðar þetta frumvarp. Ég renndi aðeins yfir frumvarpið fyrir nokkrum vikum, minnir mig, og las kaflann Tilefni og nauðsyn lagasetningar. Mér finnst þessi skýring sem kemur fram undir þeim kafla eiginlega bara ekki vera nógu góð af því að persónulega sé ég ekki tilefni og ég sé heldur ekki nauðsyn til lagasetningar. Það er hægt að tala um þetta mál í hringi, hægt að tala um það hvað við þurfum að betrumbæta kerfið mikið í hringi. En þessi nálgun og þessi lagabálkur og þessar lagabreytingar sem hér er verið að kveða á um eru ekki málið af því að, eins og hefur margoft komið fram í ræðum þingmanna hér, þetta er ekki að fara að auka skilvirkni þegar kemur að þeim vandamálum sem liggja núna fyrir heldur er þetta að fara að minnka skilvirknina og þetta er að fara að auka kostnað í félagslega kerfinu okkar og bara kerfunum yfir höfuð, ekki bara því félagslega, með þeim breytingum sem þetta frumvarp felur í sér.

Síðan væri ég líka til í að fara í sögulega skýringu á þessu frumvarpi, jafnvel þó að þetta hafi ekki orðið að lögum. Ég held að löggjafanum beri skylda til að taka því sem einhvers konar vísbendingu ef þetta hefur verið lagt fram fimm sinnum og aldrei náð að fara í gegn. Það virðist bara vera svo að það sé ekki vilji fyrir því að þetta frumvarp fari í gegn, að þessar breytingar taki gildi af því að þær eru vissulega mjög íþyngjandi en ég held að þetta muni skapa fleiri vandamál fyrir kerfið okkar heldur en það leysir.

Þessu er verið að koma í gegn í mjög miklum flýti. Það er verið að afgreiða þetta án þess að taka til umhugsunar neinar athugasemdir, hvers konar athugasemdir, sem koma frá einhverjum sem er ekki í meiri hluta, sem mér finnst líka vera bagalegt. Mér finnst mjög vert að nefna að það eru hópar sem eru að mótmæla þessu frumvarpi. Það var einn hópur, samansettur af ungmennum, sem hélt tónleika í því skyni að vekja athygli á þessu frumvarpi og að það ætti að fella það. Ber ríkisstjórninni ekki skylda til að taka alla vega þessar kröfur til greina eða skoða hvaðan þessi andstaða fólks kemur hvað varðar þetta frumvarp? Þessi þróun veldur mér mjög miklum áhyggjum af því að þrátt fyrir að við séum öll að koma upp í pontu hér trekk í trekk þá er, eins og ég hef talað um áður, enginn úr meiri hlutanum í þingsal þannig að ég veit ekki hvort við erum bara að tala við vegg eða hvort verið er að taka þessar áhyggjur og ábendingar okkar til greina hvað varðar efnisatriði lagafrumvarpsins sem hér um ræðir.

Svo bara svona í síðasta skipti, síðan er ég að fara að tala efnislega um frumvarpið, ákvæði fyrir ákvæði, þá er ekkert að núgildandi útlendingalögum sem voru samþykkt árið 2016. Ég held að þessi ofuráhersla á að samþykkja þetta frumvarp sé bara einhver þrjóska í Sjálfstæðisflokknum, sé bara eitthvað sem þau vilja þröngva í gegn til þess að geta sagt að þau hafi gert það og komið á einhverjum stórtækum breytingum sem munu auðvitað bara skapa fleiri vandamál fyrir kerfið og meiri kostnað fyrir ríkið þegar kemur að málefnum flóttafólks. Það er svo sem enginn að pæla í þessu af því að það er bara búið að festa þessa hugmynd hjá stjórnarliðum: Þið verðið að ná þessu frumvarpi í gegn, við verðum að setja þessi lög, síðan bara kemur allt hitt seinna. Vandamál sem gætu komið upp verða leyst eftir að þau koma upp.

Þetta er nákvæmlega eins og það sem gerðist varðandi brottvísun Husseins. Þetta var ómannúðleg brottvísun, klárt brot á mannréttindum, mistök sem eru ekki mistök, þetta voru bara skítleg vinnubrögð. En mistök áttu sér samt sem áður stað. Eftir að mistökin voru gerð áttuðu stjórnvöld sig á því að þetta gengur ekki og að þau þurfa að koma einhverjum verkferlum í lag til að koma í veg fyrir að svona mistök eigi sér stað aftur. Og hvað gerist þegar við samþykkjum þetta frumvarp? Þurfum við að fá úr því skorið hjá dómstólum að um sé að ræða mannréttindabrot til þess að þessum lögum verði breytt? (Forseti hringir.) Það er ótrúlega íþyngjandi og langt og kostnaðarsamt ferli, í stað þess að meiri hlutinn taki bara athugasemdir og ábendingar löggjafans til greina sem hér hafa komið fram.