Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Mér fannst svolítið skemmtileg umræða sem hófst hér áðan varðandi breytingar, smávægilegar breytingar á orðalagi í lögum sem virðast sakleysislegar við fyrstu sýn en hafa afdrifaríkar afleiðingar. Það rifjaði upp fyrir mér ákvæði sem var inni í þessu frumvarpi fyrir tveimur útgáfum síðan sem þá var í raun eitt alvarlegasta ákvæðið í frumvarpinu. Það er búið að taka það út núna, tók okkur fjögur þing, fjórar tilraunir að útskýra fyrir ríkisstjórninni hvers vegna það væri hræðilegt. Allt tekur sinn tíma en dropinn holar steininn. Ákvæðið var svohljóðandi í frumvarpinu sem lagt var fram á 151. þingi, með leyfi forseta: „Á eftir orðunum „greinir í“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: b-, c- og d-lið.“ — Búið.

Þetta er ein lína, eitthvað tæknilegt, það er verið að taka eitthvað út. Hvað var verið að gera þarna? Hvað er að gerast þarna? Í umræddum 1. málsl. 2. mgr. sem þarna er talað um segir svo:

„Ef svo stendur á sem greinir í 1. mgr. skal þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því.“

Hér segir: Ef svo stendur á sem greinir í 1. mgr., og í 1. mgr. eru þrír stafliðir a, b og c. Það sem stóð til að gera með því að skrifa í stað a, b og c — sem þá voru reyndar a, b, c og d — b, c og d-lið var að undanskilja a-liðinn. Til að gera langa sögu stutta var þetta ákvæðið sem hefði gert það að verkum að íslensk stjórnvöld hefðu í rauninni ekki haft neina skyldu eða heimild til að taka til efnismeðferðar hér á landi umsóknir einstaklinga sem hafa fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki.

Það kom mér ánægjulega á óvart þegar ég sá að þetta hafði verið tekið út. Mér heyrist þó ekki á hv. þingmönnum ríkisstjórnarinnar að þeir séu búnir að skipta um skoðun þar sem til að mynda hv. þm. Jódís Skúladóttir sagði opinberlega um daginn að henni þætti fullkomlega eðlilegt að fólk sem væri búið að fá vernd í öðru ríki ætti ekkert erindi inn í kerfið hjá okkur. Mér heyrist ríkisstjórnin enn þá vera á þeirri að skoðun að finnast fólk sem hefur fengið vernd í öðru ríki, jafnvel þótt við séum að tala um Grikkland þar sem það hefur ekki aðgang að húsaskjóli né neins konar framfærslu, vinnumarkaði, heilbrigðisþjónustu eða neinu, eigi ekki að vera að koma hingað til lands. Hins vegar var fallið frá þessu ákvæði, sennilega vegna þrýstings eða vegna þess að ríkisstjórnin fann aðra leið til þess að eyðileggja þetta ákvæði og það er leiðin sem farin er núna í 8. gr. frumvarpsins, sem ég mun fjalla um á eftir af því að ég er ekki kominn að 8. gr., ég var bara að klára 5. gr. rétt áðan. Í stað þess að afnema skyldu íslenskra stjórnvalda til að skoða umsóknir fólks sem t.d. hefur fengið vernd í Grikklandi, ef sérstakar ástæður mæla með því eða ef það er með sérstök tengsl á Íslandi, er ákveðið að eyðileggja tímafresti sem núna hvíla á stjórnvöldum, ákveðin tímamörk sem lögin gera kröfu um að stjórnvöld vinni málið innan, klári málið innan, ella skal málið tekið til efnismeðferðar hér á landi, nema umsækjandi sjálfur beri ábyrgð á töfum á meðferð málsins. Það er alveg ljóst að framsetningin á þessu frumvarpi segir ekki alla söguna, hún segir ekki hálfa söguna, hvorki frumvarpið eins og það stendur né greinargerðin með því. En það verður að játast að þær opinberu athugasemdir sem við fáum frá þingmönnum meiri hlutans um ákveðna þætti þessa frumvarps segja okkur eitthvað. (Forseti hringir.)

Tími minn búinn. Ég held áfram í næstu ræðu og óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá.