Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Ég var að minnast á þær rangfærslur sem dómsmálaráðherra kom með í einu viðtali á síðasta ári. Önnur rangfærslan var að fólk sem fær vernd í einu Evrópuríki geti farið hvert sem er í Evrópu og leitað sér að vinnu. Eins og ég sagði er þetta rangt og augljóslega svo. Við myndum sjá allt öðruvísi landslag í flóttamálum ef svo væri. Fólk sem býr á ruslahaugunum í Grikklandi væri búið að fara annað og leita sér að vinnu annars staðar, það er ekkert flóknara en það. Það sem er rétt í þessu er að dvalarleyfi fyrir flóttamann í einu Evrópuríki fylgir ferðaheimild innan Evrópu sem ferðamaður í þrjá mánuði. Þetta er algjört grundvallaratriði og er grundvallarmuninn á því hvað það þýðir hvað atvinnu varðar, þ.e. að fólk í þessari stöðu hefur enga heimild til lengri dvalar eða atvinnu í öðrum ríkjum og ekki raunhæfan kost á að sækja um annars konar dvalar- eða atvinnuleyfi en stöðu flóttamanns. Það að sækja um stöðu flóttamanns er ekkert annað en umsókn um dvalar- og atvinnuleyfi. Þegar fólk sækir um vernd er það í raun að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi sem það er ekki með. Þessi einfalda staðhæfing dómsmálaráðherra er í fyrsta lagi rekjanleg. Það er hægt að fara í bókstafinn og sjá: Nei, þetta er ekki rétt. Það er síðan líka hægt að nota bara einfalda skynsemi; ef þetta væri rétt væri staðan allt öðruvísi. Fólk væri ekki að hrúgast upp á Ítalíu og í Grikklandi heldur myndi það fara annað þar sem það gæti leitað sér að vinnu. Fólk sem er hérna að sækja um vernd myndi þá ekkert vera að því, það myndi einfaldlega leita sér að vinnu. Það er mjög merkilegt að dómsmálaráðherra hafi látið þessi ummæli falla.

Þriðja rangfærslan er að reglurnar séu skýrar um að fólk sem hefur fengið vernd í öðru landi skuli fara þangað aftur. Þetta er í raun sama rangfærslan, bara orðuð öðruvísi, og fyrsta rangfærslan sem ég talaði um áðan. Íslensk lög heimila og jafnvel skylda íslensk stjórnvöld til að meta hvert mál og senda fólk ekki aðstæður á borð við þær sem margt flóttafólk býr við í Grikklandi, Ítalíu og Ungverjalandi. Þarna er ráðherra í raun að lýsa markmiðum sínum, hvernig hann vill að lögin líti út en ekki hvernig þau eru. Ef lögin væru svona þá værum við dálítið mikið á *grensunni* (meinar hann á mörkunum?) gagnvart flóttamannasamningi og mannréttindasáttmálum, að haga þessu þannig. Þarna er verið að beita lögum og lýsa þeim eins og þetta frumvarp sem var lagt fram á þeim tíma hefði verið samþykkt. Það er sem betur fer ekki staðan sem við erum í núna, enn sem komið er. Við ætlumst til þess að fólk gerir betur.

Svo er það fullyrðingin um að flóttafólk í Grikklandi búi við sömu aðstæður og aðrir Grikkir. Aftur: Augljóslega ekki. Við vitum þetta út af endalaust mörgum skýrslum, fréttum upptökum sem fólk getur horft á sjálft af því hvernig fólk býr þar. Ráðherra getur alveg lesið þetta sjálfur og hann á að vita þetta. Það er bara lágmarksvirðing gagnvart almennri skynsemi að forðast að bjóða upp á svona málflutning. Flóttafólk hefur ekki raunverulegan aðgang að vinnumarkaði, hefur ekki aðgang að húsnæðismarkaði, hefur ekki aðgang að félagslegum úrræðum og þetta þýðir að langflest flóttafólk í Grikklandi er á götunni án húsaskjóls, án matar og án vonar um að það muni nokkurn tímann breytast. Það er í mjög takmörkuðum búðum sem eru með mjög skerta þjónustu. Það kemst ekki eins auðveldlega að í heilbrigðiskerfinu þar sem (Forseti hringir.) grískur ríkisborgari getur gengið inn á meðan flóttamaðurinn er stoppaður. Þetta var fjórða rangfærslan, ég held áfram í næstu ræðu.