Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Enn um fólkið í umborinni dvöl — skrýtið hugtak. Umsækjendur um alþjóðlega vernd sem ekki er hægt að flytja úr landi — það segir ekkert mikið meira heldur. Það er dálítið erfitt að ná utan um þetta. Þetta er fólk sem á hvergi heima, það er búið að flýja heimaland sitt og sækja um vernd hér, fá synjun, Ísland vill henda því út en það getur ekki hent því neitt. Það á því hvergi heima, tilheyrir hvergi, er samt hér, getur ekki annað, en íslenska ríkið er búið að sníða það þröngan stakk utan um þau að þau geta voða lítið gert. Það er einmitt svo áberandi í niðurstöðum þeirra viðtala sem Rauði krossinn tók við fólki í þessari stöðu, að það t.d. truflar fólk að hafa engin lagaleg réttindi á Íslandi. Af því að það er alltaf vísað til þess að Ísland eigi að rembast við að taka upp útlendingalöggjöf nágrannalandanna þá bendir Rauði krossinn einmitt á að í Svíþjóð geti fólk í þessari stöðu sótt um atvinnuleyfi, sem það getur ekki hér. Þetta er eitthvað sem væri hægt að laga hér, ef við viljum gera þessu fólki kleift að sjá sér farborða bara til að geta lifað mannsæmandi lífi, til að geta haft efni á því að börnin þeirra fari í skóla, til að þau sæki sér heilbrigðisþjónustu. Það er svo margt sem kostar pening, forseti. Og ekki á þetta fólk mikið af honum.

Síðan verða til enn önnur vandamál þegar börn þessara einstaklinga fæðast hér á landi og það er búið að sníða lagaumhverfið haganlega þannig að það sé óskilgreint hvert ríkisfang barna sem fæðast við þær aðstæður sé. Þetta held ég að sé ekkert óvart. Af því að við tölum gjarnan um hina þverpólitísku samstöðu sem var við smíði útlendingalaganna hér fyrir tæpum áratug þá held ég að þetta hafi verið eitt af því sem komst í gegn án þess að vera unnið nógu vel með. Þegar barn fæðist hér á landi er það skráð með sama ríkisfang og foreldrar þess en þrátt fyrir það eru börn þessara einstaklinga í umborinni dvöl ekki viðurkennd sem ríkisborgarar í upprunaríkinu og þar með ríkisfangslaus, hvergi skráð. Samt er Ísland búið að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um bann við ríkisfangsleysi eða hvort það eru varnir gegn ríkisfangsleysi, annaðhvort er það en merkingin sú sama. Það eru grundvallarmannréttindi að hafa ríkisfang, að eiga eitthvert heimaland. Þetta er meira að segja þannig að sum mannréttindi eru ríkjum til vansa. Sum mannréttindi snúast um það að ríkið þurfi að vanda sig í samskiptum við borgarana, flest eru nú þannig. En þessi mannréttindi eru svolítið öðruvísi vegna þess að án ríkisborgara er ekkert ríki. Þetta er það ákvæði mannréttindagreina stjórnarskráa sem snúast bókstaflega um það að eitthvert ríki sé til staðar. Þess vegna þarf það að vera gagnkvæmt, að einstaklingar hafi rétt til ríkisfangs alveg eins og ríki — það á ekki endilega rétt til einstaklinga en það þarf einstaklinga til að vera til staðar. Og eins og ég sagði áðan, þessi skýrsla Rauða krossins sem barst dómsmálaráðuneytinu í byrjun nóvember og Alþingi í lok nóvember sýnir bara svart á hvítu að það verður að bregðast við stöðu þess hóps en ekki stækka hann, eins og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til.