Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Er málþóf slæmt? Það var hérna fyrr í dag í umræðu um atkvæðagreiðslu um lengd þingfundar sem fjármálaráðherra var rosalega misboðið, með leyfi forseta:

„Manni er nú hressilega misboðið hvernig öllu er snúið á hvolf í umræðu um mál sem hefur fengið verulegan tíma í þingstörfum þessa vetrar og sömuleiðis hefur verulega verið komið til móts við sjónarmið minni hlutans um að fresta umræðu og bíða og sjá til o.s.frv.“ — Nei.

Pælum pínu abstrakt í málþófi. Það getur verið af tveimur mismunandi ástæðum. Það geta verið góðar ástæður fyrir málþófi og það geta verið slæmar ástæður fyrir málþófi. Ef það eru góðar ástæður fyrir málþófi, er málþóf þá vont bara sjálfkrafa? Augljóslega ekki. Það er væntanlega réttlætanlegt. Ef það eru ekki góðar ástæður fyrir málþófi er málþófið vont, augljóslega. Ég velti þessu fyrir mér út frá orðum hæstv. ráðherra um það hvernig honum er hressilega misboðið, hvernig öllu er snúið á hvolf og hvernig það er búið að koma til móts við sjónarmið minni hlutans um frestun o.s.frv. — sem er ekki það sem er búið að vera að tala um heldur höfum við verið að segja: Við erum hérna að glíma við umsagnir frá Barnaheill, landlækni, Hafnarfjarðarbæ, Íslandsdeild Amnesty International, Kvenréttindafélagi Íslands, Þroskahjálp, Læknafélaginu, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, prestum innflytjenda og flóttafólks og Rauða krossi Íslands sem eru með ansi alvarlegar athugasemdir um þetta frumvarp. Þetta sprettur ekki upp úr engu, ekki eins og orkupakkamálið þar sem var einhver ein umsögn tveggja lögfræðinga sem voru með ályktanir á mjög hæpnum forsendum um að það væri mögulega hægt að túlka löggjöfina á einhvern kreatífan hátt sem útúrsnúning og hægt að trekkja út úr kerfinu einhvers konar svindl, sem bara er dálítið eins og Ísland virkar, því miður. En í þessu tilviki erum við að innleiða löggjöf frá Evrópusambandinu þar sem það virkar alls ekki þannig. Þar er mjög skýrt hvað lögin segja og hvað lögin eiga að þýða. Og sem betur fer erum við með eins og í tilviki mannréttindasáttmála Evrópu Mannréttindadómstól Evrópu sem hjálpar t.d. íslenskum stjórnvöldum mjög oft við að skilja hlutina rétt, af því að íslensk stjórnvöld hafa ítrekað misskilið hin ýmsu mannréttindaákvæði sem hafa verið leidd í lög út af mannréttindasáttmála Evrópu. En þannig erum við einmitt á Íslandi og það er kannski skiljanlegt að Íslendingar séu hræddir við útúrsnúninga á lögum af því að það gerist bara rosalega oft á Íslandi. Sem betur fer erum við hins vegar, eins og ég sagði, með alþjóðastofnanir sem geta slegið á puttana á stjórnvöldum. Það er því ekki verið að snúa neinu á hvolf. Við erum með þessar umsagnir frá mörgum umsagnaraðilum og þær eru ekki útúrsnúningatúlkun íslenskra lögfræðinga á mjög hæpnum forsendum. Þetta eru mjög margir aðilar sem eru með mjög mikla þekkingu á þessum málaflokki. Sjónarmið okkar Pírata er alla vega — ég veit ekki um allan minni hlutann, það er ekki hægt að alhæfa um minni hlutann frekar en það virðist hægt að alhæfa um stjórnina, þ.e. sumir í stjórninni vilja breytingartillögur og aðrir ekki en við erum með ráðherra málaflokksins sem virðist ráða þessu öllu óháð því hvort það sé einhver ríkisstjórn hérna sem er að reyna að stjórna hlutanum í þessu stjórnleysi — það þarf að svara þessum umsögnum, af því að þær eru mjög neikvæðar. Það er rosalega einföld beiðni og það er búið að viðurkenna það, af hluta stjórnarmeðlima alla vega, að það þurfi að sinna þessum umsögnum. (Forseti hringir.) Þannig að okkar sjónarmið eru rosalega einföld: Vinnum í því. — Ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á dagskrá.