Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:57]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er í óðaönn að leiðrétta það sem kemur fram í greinargerð með 6. gr. frumvarpsins sem við ræðum hér, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eru breytingarnar m.a. í samræmi við löggjöf og framkvæmd annars staðar á Norðurlöndum.“

Ég þóttist vita að þetta væri rangt og fór á stúfana og fékk upplýsingar um hvað er að gerast í þessum málum annars staðar á Norðurlöndunum og ég var að fara yfir það sem umsækjendum um alþjóðlega vernd er boðið upp á á meðan á umsókn stendur. Svo mun ég víkja að því sem þeim er boðið upp á þegar búið er að synja umsókninni og 30 dagar eru liðnir; hvort það sé, eins og fullyrt er í frumvarpinu, bara eins og verið er að leggja til hér, að fólk missi öll réttindi.

Ég var búin að fara yfir framfærslu dönsku útlendingastofnunarinnar fyrir umsækjanda um alþjóðlega vernd sem felur í sér kostnað vegna fatnaðar, hreinlætisvara, fæðis nema það sé mötuneyti, nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, e.t.v. nauðsynlega félagsþjónustu, kennslu fyrir börn, virkniþjálfun fyrir fullorðna, búsetu á móttökustað og ferðir sem farnar eru vegna samtala við stjórnvöld, heilbrigðisþjónustu og þess háttar. Við heimsóttum reyndar búðir af þessu tagi þegar við fórum í vettvangsferð, allsherjar- og menntamálanefnd, til Danmerkur, móttökubúðirnar. Þar var t.d. nefnt vandamál sem einangrar fólk mjög mikið. Þetta er pínulítið úti í sveit en þau geta ekki fengið strætómiða til að fara inn í bæ nema til að eiga samtöl við stjórnvöld eða vegna heilbrigðisþjónustu og vasapeningurinn dugir ekki til að þau geti greitt fyrir það sjálf. Þessu lýsti Rauði krossinn, sem rekur búðirnar, sem vandamáli. Það er því ekki úr miklu að moða þar frekar en hér.

Það er einn fatapakki á mann, rúmar 1.609 danskar krónur, og hreinlætispakkinn er tæplega 130 danskar krónur. Ég þarf að fletta upp fyrir næstu ræðu mína hvert gengið á dönsku krónunni er svo að ég geti nú sett þetta í betra samhengi við íslenskan raunveruleika. Ég held máli mínu áfram hérna rétt á eftir. Það er ungbarnafatapakki sem er tæplega 3.220 danskar krónur, hvert barn fær einn ungbarnafatapakka, svo barnafatapakki, 756 danskar krónur, og það eru tveir barnafatapakkar á ári með sex mánaða millibili. Svo er barnapakki, ætli það séu ekki bleiur eða eitthvað annað slíkt, 172 danskar krónur, barnapakkinn er látinn í té á tveggja vikna fresti. Þarna eru fólki sem sagt einfaldlega útvegaðar helstu nauðsynjar á meðan fólk í þessari stöðu á Íslandi fær 10.400 kr. á viku til að hafa efni á þessu öllu saman, að því undanskildu að ég held að fólk fái enn fatakort til að nota í verslunum Rauða krossins þó að mér sé ekki alveg kunnugt um hvað það eru háar fjárhæðir. Fjárstuðningur við umsækjendur um alþjóðlega vernd í Danmörku er ákveðin grunngreiðsla sem er 56,59 danskar krónur á dag fyrir þau sem ekki eru í fríu fæði í búsetuúrræðinu og ef viðkomandi er í hjónabandi eða sambúð fær hvor aðili um sig 44,81 danska krónu á dag. Það er sem sagt aðeins minna á mann þegar eru tveir, þau geta deilt saltinu og svona. Þessi greiðsla er innt af hendi fyrir fram annan hvern fimmtudag, sem sagt á tveggja vikna fresti. Þetta eru ekki háar fjárhæðir. Viðbótargreiðslu geta þeir fengið sem hafa náð 18 ára aldri og hafa gert samkomulag um nám eða aðra virkni og upphæð þessarar viðbótargreiðslu er 9,44 danskar krónur á dag ef ekki liggur fyrir hvort umsóknin verði tekin til meðferðar í Danmörku. Þegar það liggur fyrir að umsóknin verði tekin til meðferðar þá hækkar greiðslan í 33,02 danskar krónur á dag.

Ég óska enn eftir þýðingu á enska orðinu „cliffhanger“ og eftir því að komast aftur á mælendaskrá.