Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég hef töluvert verið að fjalla um umsögn Rauða krossins um þetta frumvarp vegna þess að það er ein ítarlegasta umsögnin um það. Mig langar að halda áfram að fjalla um það hér, sérstaklega þann part frumvarpsins sem snýr að þessum sjaldgæfa kærurétti. Þessi breyting á kærurétti, þannig að kærur á synjun Útlendingastofnunar verði sjálfkrafa sendar af stað tveimur vikum eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar liggur fyrir — það mætti halda að þetta væri einhvern veginn sniðugt til að spara tíma og örugglega bara umsækjendunum fyrir bestu og þannig hefur þetta eiginlega verið kynnt. En það er ekki það sem t.d. Rauði krossinn segir, samtök sem þangað til þessi ráðherra tók við valdataumunum, hæstv. dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson, sáu um málefni flóttamanna. Rauði krossinn var með samkomulag við ríkið um að vera talsmaður flóttamanna og hefur þar af leiðandi mjög mikla reynslu og þekkingu á þessum málaflokki og veit nákvæmlega hvernig þessi málsmeðferð er, enda hafa þau verið að sinna réttindagæslu fyrir þennan hóp. Þess vegna hlýtur umsögn frá Rauða krossinum um hvaða neikvæðu áhrif þetta hefur á málsmeðferðarréttindi flóttafólks að vega ansi þungt. Samt hefur það ekki leitt til neinna teljandi breytinga hingað til.

Mig langar að vísa í bls. 2 í umsögn Rauða krossins um einmitt þetta atriði. Það fjallar um 2. gr. frumvarpsins og þar segir, með leyfi forseta:

„Hér er lagt til að ákvarðanir Útlendingastofnunar um synjun á efnislegri meðferð á grundvelli 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 (útl.) sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæra ekki. Þá er gerð sú krafa að greinargerð vegna kæru berist kærunefnd útlendingamála innan 14 daga frá birtingu ákvörðunarinnar.

Samkvæmt framangreindu munu umsækjendur í málum er falla undir 36. gr. útl. (að meginstefnu svokölluð Dyflinnar- og verndarmál) ekki eiga kost á að nýta sér almennan 15 daga kærufrest til ákvörðunar um framhald máls, en í framkvæmd hafa umsækjendur gjarnan nýtt sér umræddan frest. Tvenns konar ástæður liggja að jafnaði því að baki.

Annars vegar eru ákvarðanir Útlendingastofnunar birtar og afhentar umsækjendum á íslensku og ekki þýddar á önnur tungumál en gera má ráð fyrir að lengd ákvörðunar í málum af þessu tagi sé 10–20 blaðsíður að jafnaði.“

Það er verið að birta flóttafólki ákvarðanir sem eru 10–20 blaðsíðna langur lagatexti á íslensku og þau fá það ekki þýtt yfir á önnur tungumál þrátt fyrir að ég telji að ákveðin kvöð hvíli á stjórnvöldum um að tryggja að allar ákvarðanir um flóttafólk séu tilkynntar því á tungumáli sem það skilur. Þetta hélt ég að væri bara hluti af Dyflinnarreglugerðinni en ég þarf greinilega að kanna það betur miðað við verklagið sem Rauði krossinn lýsir hérna.

En áfram heldur í umsögninni:

„Birting ákvörðunar fer nú fram á þann veg að ákvörðunin er ekki birt fyrir umsækjanda sjálfum, heldur send löglærðum talsmanni hans í gegnum forritið Signet Transfer en hvorki lögregla né fulltrúi Útlendingastofnunar sér um framkvæmd birtingar. Í kjölfarið þarf talsmaður að bóka fund ásamt túlki með umsækjanda til að skýra forsendur ákvörðunarinnar en slíkt er í flestum tilvikum ekki hægt að gera samdægurs. Á umsækjandi því ekki kost á að fá munnlegar skýringar á niðurstöðu máls við birtingu. Reynsla Rauða krossins af talsmannaþjónustu hefur verið sú að umsækjendur óska oft á tíðum eftir ráðgjöf hjá talsmanni að lokinni birtingu til að fá efnislega útskýringu á niðurstöðu ákvörðunar og í framhaldi að ræða næstu skref. Að mati Rauða krossins er frestur til umhugsunar um kæru nauðsynlegur og sjálfsagður til að gefa umsækjendum tækifæri til að kynna sér forsendur niðurstöðu ákvörðunarinnar og taka upplýsta ákvörðun um kæru.“

Þessu er ég alveg sammála, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég kemst víst ekki í að útlista hvers vegna í þessari ræðu en óska eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.