Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:48]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég er búin að eyða svolítið miklu púðri núna nokkrar ræður í röð í að fara yfir umsagnir aðila sem eru sérfróðir í þessum málum en ég held að það sé kominn tími til að fara yfir þau ákvæði frumvarpsins sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við og þingflokkur Pírata hefur líka gert alvarlegar athugasemdir við.

Í 2. gr. leggur dómsmálaráðuneytið til að þær ákvarðanir sem Útlendingastofnun tekur um að synja efnislegri meðferð á umsókn um alþjóðlega vernd á grundvelli 36. gr. muni sæta sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að svo verði ekki. Tilkynningin um að kæra verði ekki lögð fram á að berast kærunefnd útlendingamála innan 14 daga frá birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar. Annars telst hún vera niður fallin. Ég sé að þessi breyting hér er lögð til undir formerkjum þess að auka skilvirkni og hraða málsmeðferð en ég held að það muni ekki leiða til þess heldur mun þetta leiða til þess að fleiri umsækjendur um alþjóðlega vernd verði sviptir réttlátri málsmeðferð sem ber að taka rosalega alvarlega og er þetta eitt af því sem margir umsagnaraðilar hafa gert athugasemd við.

Síðan ætlaði ég að koma inn á 3. gr. en ég er búin að koma inn á 3. gr., rosalega ítarlega, en ég gæti svo sem alveg gert það aftur en ég ætla bara að leggja áherslu á 4. gr. núna. Í 4. gr. er lagt til að á eftir 2. mgr. 17. gr. útlendingalaga komi ný málsgrein, þá 3. mgr., en þar verður kveðið á um að lögregla fái heimild til að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt eða andlegt ástand útlendings ef nauðsyn ber til til að tryggja þá framkvæmd ákvörðunar um brottvísun.

Það sem ég geri athugasemd við varðandi þetta er að ef lögreglan hyggst afla þessara upplýsinga þá felur þessi heimild í 4. gr. í sér að lögregla megi bara afla þessara upplýsinga án samþykkis einstaklingsins sem um er að ræða, sem hlýtur auðvitað að teljast alvarlegt brot á persónuverndarlögum af því að hér er um viðkvæmar upplýsingar að ræða og þetta eru ekki upplýsingar fyrir hvern sem er. Þetta er auðvitað líka bara alvarlegt inngrip í friðhelgi einkalífs fólks sem er í viðkvæmri stöðu, fólks sem hefur verið að flýja heimaland sitt af ástæðum sem ég tengi ekki við, sem við getum örugglega ekki einu sinni hugsað okkur. Þannig að ég held að við þurfum að hafa samkenndina hér að leiðarljósi og gera okkur grein fyrir því að þetta er rosalega mikið inngrip inn í friðhelgi einkalífs fólks sem hefur sætt ömurlegri meðferð hingað til. Ég sé ekki fullnægjandi rök fyrir þessum takmörkunum á mannréttindum fólks og ég sé ekki hvernig þetta myndi þá samræmast stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu eins og ég hef oft gert athugasemd við í ræðum mínum í kvöld. En það verður þá bara að vera það. Þetta er eitthvað sem ég hvet meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar eindregið til að taka til skoðunar þegar málið verður aftur tekið inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. Þetta er rosalega alvarlegt inngrip og ég held að það hafi ekki fengið næga umfjöllun.

Í 6. gr. frumvarps frumvarpsins er lagt til að réttur umsækjenda um alþjóðlega vernd til grunnþjónustu verði felldur niður 30 dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar í máli þeirra og þetta er auðvitað eitthvað sem ég er búin að koma rosalega mikið inn á hér í kvöld. Þetta er bara hrein og bein mismunun og ásetningurinn á bak við setningu þessa lagaákvæðis er auðvitað bara að hrekja fólk úr landi, sem stenst auðvitað ekki lög, ekki með þessum hætti, og ég bið nefndina að taka þetta til skoðunar líka.