Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:25]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég er við það að ljúka umfjöllun minni um 2. gr. frumvarpsins sem snýr að því að skerða verulega málsmeðferðarréttindi fólks á flótta í íslenskri löggjöf. Ég hef verið að vísa í ítarlega umsögn Rauða krossins um frumvarpið máli mínu til stuðnings. Eins og ég hef komið inn á hafa umsækjendur um alþjóðlega vernd 15 daga kærufrest til að ákveða hvort þeir vilji kæra neikvæða ákvörðun Útlendingastofnunar til æðra stjórnvalds, þ.e. kærunefndar útlendingamála, og til að afla gagna sem Útlendingastofnun, þrátt fyrir frumkvæðisskyldu sína til að gera slíkt, hefur ekki gert; að það sé viðtekin venja hjá Útlendingastofnun.

Eins og kemur fram á 3. bls. í umsögn Rauða krossins hefur þessi 15 daga kærufrestur oft nýst talsmanni og umsækjanda til nauðsynlegrar gagnaöflunar í því skyni að varpa ljósi á sérstaklega viðkvæma stöðu viðkomandi. Ég hef farið inn á það að dæmi séu um að umsækjandi eigi bókaðan tíma hjá sérfræðingi og að umsækjandi hafi þurft að nýta kærufrestinn, til þess að bæta upp fyrir vanrækslu stjórnvalda á rannsóknarskyldu sinni, svo að öll nauðsynleg gögn geti legið fyrir svo að talsmaður geti fjallað sérstaklega um það í greinargerð á kærustigi. Útlendingastofnun hefur þannig ekki aflað viðeigandi gagna um hvort umsækjandi tilheyri sérstaklega viðkvæmum hópi sem nýtur þá sérstakrar verndar og hefur heldur ekki gefið umsækjandanum viðeigandi tíma til að afla nauðsynlegra gagna, eins og t.d. vottorðs frá lækni um að hann hafi sætt pyntingum eða hafi sætt kynfæralimlestingum eða einhverju slíku eða að hann þjáist af áfallastreituröskun eða öðru sem er algengt að flóttamenn glími við. Þess vegna nýtist þessi 15 daga kærufrestur í raun til að bæta upp fyrir vanrækslu stjórnvaldsins á lægra stjórnsýslustigi og þessi tími er notaður til að geta fært þessi gögn fyrir kærunefndina. Mikilvægi þessa tíma til að afla þessara gagna kemur mjög skýrt fram í umsögninni, með leyfi forseta:

„… svo öll nauðsynleg gögn geti legið fyrir og talsmaður geti fjallað sérstaklega um í greinargerð á kærustigi. Hér skal einnig áréttað að úrskurður kærunefndar útlendingamála er lokaúrskurður í máli viðkomandi þar sem möguleikar umsækjenda um alþjóðlega vernd til þess að bera mál sitt undir dómstóla hafa verið takmarkaðir verulega.“

Og það er alveg rétt. Það er vegna þess að núverandi lagaumhverfi er þannig að það er kærunefndin sjálf sem ákveður hvort kæra til dómstóla — segjum að kærunefndin komist líka að neikvæðri niðurstöðu, þá er það samt sem áður kærunefndin sjálf sem ákveður hvort kæra til dómstóla fresti réttaráhrifum, ákvörðunum kærunefndarinnar, og þetta er bara almennt eiginlega aldrei gert. Ef kærunefndin ákveður að viðkomandi fái ekki efnismeðferð, fái ekki vernd, ef hún vill vísa viðkomandi úr landi fari hann ekki sjálfviljugur og viðkomandi ákveður að kæra þessa niðurstöðu á stjórnsýslustigi til dómstóla, þá er það kærunefndin sjálf sem ákveður hvort ákvörðun hennar hafi réttaráhrif eða ekki. Auðvitað væri miklu eðlilegra fyrirkomulag að það væru dómstólarnir sem myndu ákveða það. En flóttafólk á Íslandi býr almennt ekki við góða réttarvernd og þess vegna er það kærunefndin sem ákveður það. Hún ákveður venjulega að ákvörðun hennar sé í raun endanleg vegna þess að um leið og búið er að senda fólk úr landi eru möguleikar þess til að reka mál fyrir dómstólum orðnir verulega takmarkaðir.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt athugasemdum frumvarpshöfunda er ákvæðinu ekki ætlað að breyta framkvæmd að öðru leyti en að stytta þann tíma sem ekki sé nýttur í málavinnslu og auka skilvirkni án þess að skerða réttarvernd aðila máls. Leggur Rauði krossinn til að verði núgildandi 15 daga kærufrestur afnuminn verði verklagi formlega breytt til þess að tryggja að Útlendingastofnun sinni rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 1. mgr. 25. gr. útlendingalaga og tryggja möguleika umsækjenda á því að leggja fram nauðsynleg gögn í máli sínu áður en ákvörðun er tekin.“

Virðulegur forseti. Ég sé að tími minn er búinn en ég vil endilega fara út í það hvers vegna ég held að það sé til lítils að vinna (Forseti hringir.) að breyta formlegu verklagi. Ég óska því eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.