Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég má til með að ræða aðeins um 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu vegna þess að hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom inn á þetta mikilsverða og mikilvæga ákvæði í mannréttindasáttmála Evrópu sem, ef ég man rétt, er í 68. gr. stjórnarskrárinnar okkar líka, held ég alveg örugglega — ég ætla nú ekki að fletta því upp. Þetta ákvæði skiptir gríðarlega miklu máli í samhengi við réttindi flóttafólks og það er þess vegna sem ég vildi koma aðeins inn á það.

3. gr. mannréttindasáttmálans felur í sér bann, algert bann, fortakslaust bann, við pyndingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð eða refsingu. Þessi grein er sterkasta tengingin sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur gert við réttindi flóttafólks vegna þess að það hafa komið mjög mörg mál og mörg fordæmisgefandi mál frá Mannréttindadómstólnum sem snúa að endursendingum eða sem sagt brottvísunum flóttafólks til landa þar sem það á á hættu að verða fyrir pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þess vegna skiptir þessi grein og líka 68. gr. stjórnarskrárinnar svona miklu máli í samhengi við þetta frumvarp.

Það sem er mjög skýrt af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi þetta ákvæði er að það hvílir mjög þung og mikil rannsóknarskylda á yfirvöldum sem eru aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu að tryggja að ákveði þau að brottvísa fólki til annarra fullvalda ríkja en sinna eigin beri þeim að tryggja það og fullvissa sig um að viðkomandi verði ekki sendur í aðstæður þar sem hætta er á að hann verði fyrir pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þetta er bara mjög skýr dómaframkvæmd og það er raunar á þessum grundvelli sem dómstólar í Þýskalandi eru hættir að senda flóttafólk sem hefur fengið stöðu flóttamanns í Grikklandi til Grikklands, vegna þessarar skyldu sem Mannréttindadómstóllinn hefur gert mjög skýrt að hvíli á ríkjum vegna 3. gr. mannréttindasáttmálans. Það sem er lagt til að gera með frumvarpinu sem við erum að ræða hér er í raun að búa til næstum því óútfylltan tékka fyrir Útlendingastofnun til að senda fólk til landa þar sem það er vissulega hætta á að viðkomandi aðilar geti orðið fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi refsingu eða meðferð.

Hvers vegna segi ég það? Jú, vegna sérstaklega 8. gr. sem ég hef töluvert verið að fjalla um líka í ræðum mínum, þ.e. endursendingar til landa sem Útlendingastofnun finnst einhvern veginn rétt og sanngjarnt að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi að fara til þótt þeir hafi ekki dvalarleyfi þar og það séu ekki einu sinni lönd sem eru búin að samþykkja flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Eitt af alvarlegustu atriðunum við þetta frumvarp er að það eru varla settar neinar kvaðir á Útlendingastofnun að kanna aðstæður í löndunum sem Útlendingastofnun er ætlað að geta ákveðið að senda fólk til. Það eru a.m.k. miklu færri kvaðir á Útlendingastofnun að kanna aðstæður í löndum þar sem viðkomandi hefur ekki dvalarleyfi, er ekki ríkisborgari og hefur ekki rétt til dvalar en þegar Útlendingastofnun er að meta hvort rétt og sanngjarnt sé að viðkomandi einstaklingur flytji sig á milli staða í sínu eigin landi þar sem hann er þó ríkisborgari og hefur rétt til dvalar. Þetta er alveg merkilegt fyrirbrigði og ég hef miklar áhyggjur af því að þetta ákvæði stangist á við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 68. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta bann við pyndingum sem við erum að tala um, virðulegi forseti, er auðvitað grafalvarlegt mál. (Forseti hringir.) Ég hef ekki klárað umfjöllun mína um 2. gr. frumvarpsins og ég óska eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.