Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég er að fjalla um mannréttindasáttmála Evrópu og þær greinar í honum sem sem tengjast þessu frumvarpi. Ég var kominn að 5. gr. í sáttmálanum sem fjallar um rétt til frelsis og mannhelgi og var búinn að fara í gegnum 1. mgr. Mig langar að byrja á því að fjalla um 2. mgr. og ræða hana aðeins en í henni stendur, með leyfi forseta:

„Hver sá maður, sem tekinn er höndum, skal án tafar fá vitneskju, á máli sem hann skilur, um ástæðurnar fyrir handtökunni og um sakir þær sem hann er borinn.“

Frú forseti. Það er mikilvægt ef svipta á einhvern frelsi, t.d. til þess að vísa viðkomandi úr landi, að hann fái á máli sem hann skilur ástæðurnar fyrir því. Það hefur komið hér fram nokkrum sinnum að úrskurðir í málum tengdum hælisleitendum séu orðið einungis sendir til lögmanna en ekki beint til þeirra sem hafa sótt um hæli. Þar af leiðandi er það ekki á máli sem viðkomandi skilur. Þarna er mjög mikilvægt að við pössum að tryggja þau réttindi að við fáum eitthvað á máli sem við skiljum. Við sem erum með íslenskan ríkisborgararétt höfum þennan sama rétt þegar við lendum í því að vera handtekin eða eitthvað annað í útlöndum og þá viljum við og getum gert kröfu um að fá vitneskju um hvaða sakir er verið að bera á okkur á máli sem við skiljum. Það er sem sagt grundvallaratriði úr mannréttindasáttmálanum.

Einnig stendur í 4. mgr., ég ætla að reyna að hoppa yfir þannig að við séum að fjalla um hvern og einn þátt, með leyfi forseta:

„Hverjum þeim sem handtekinn er eða settur í gæslu skal rétt að bera lögmæti frelsisskerðingarinnar undir dómstól er úrskurði um hana með skjótum hætti og fyrirskipi að hann skuli látinn laus ef ólögmæt reynist.“

Ég er ekki löglærður maður en ég hef skilið þetta á þann máta, og kannski geta einhverjir lögfræðingar hér skýrt það út fyrir mér, að t.d. þegar verið er að vísa fólki úr landi og framkvæma þá frelsisskerðingu þá geti hælisleitandi borið lögmæti þessarar frelsisskerðingar undir dómstól sem skal þá úrskurða um hana með skjótum hætti. En við höfum séð dæmi og eitt nýjasta dæmið var fatlaður hælisleitandi sem vísað var úr landi fyrir jól sem var að bíða eftir dómsmeðferð og fékk hana ekki áður en honum var vísað úr landi. Það var ekki beðið eftir úrskurði þess dómstóls. Ég spyr mig hvort þetta hafi uppfyllt þessa 4. mgr.

Frú forseti. Ég sé að ég kemst bara í gegnum 5. gr. og á nokkrar greinar eftir þannig að ég óska eftir því að verða bætt aftur á mælendaskrá.