Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:03]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég er hér að ræða lög um mannréttindasáttmála Evrópu en mannréttindasáttmálinn er einmitt einn þeirra alþjóðasamninga sem þetta frumvarp brýtur í bága við. Það er því mikilvægt að allir, sér í lagi hv. þingmenn sem sitja í allsherjar- og menntamálanefnd, hafi góða yfirsýn yfir þær greinar sem tengjast frumvarpinu. Ég hef verið að fjalla um 1.–5. gr. en þær fjalla mikið til um rétt til frelsis og mannhelgi og bann við pyndingum og rétt til lífs og ýmislegt annað.

En 6. gr. fjallar um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Fyrsti hluti 1. mgr. tengist því að allir hafi rétt til þess að fá réttláta meðferð sinna mála. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti eða um sök, sem hann er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.“

Við höfum heyrt mýmörg dæmi um það, frú forseti, að fólki sé vísað úr landi áður en það hefur fengið úrskurð í sínum málum og jafnvel áður en það fær að kynna sitt mál fyrir dómstólum. Það vekur upp þær spurningar hvort ekki sé verið að ganga á þennan rétt til réttlátrar málsmeðferðar þegar slíkt er gert. En margt í frumvarpinu sem við erum að ræða núna mun einmitt gera það að verkum að fólki verði jafnvel vísað í burt áður en þetta nær fram að ganga.

Ég sé að ég hef tíma fyrir eina grein í viðbót þannig að ég ætla að hoppa yfir í 8. gr. sem fjallar um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Þar segir í 1. mgr., með leyfi forseta:

„Sérhver maður á rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta.“

Já, frú forseti, það er alltaf gaman að lesa gamla texta; bréfaskipti eru leyfð. Má ég senda tölvupóst, telst það til bréfaskipta? Jú, sennilega. En ég má sennilega ekki hringja. Eða kannski má ég hringja. Ég hef alla vega rétt til friðhelgi en í frumvarpinu kemur fram að það á að gefa leyfi til að ganga á þá friðhelgi þegar kemur að læknisskoðunum og öðru. En svo virðist sem hv. þingmenn í allsherjar- og menntamálanefnd og ráðuneyti dómsmála hafi gleymt þessari málsgrein.

Ég ætla að klára þessa ræðu með því að fara í gegnum 2. mgr. en þar stendur, með leyfi forseta:

„Opinber stjórnvöld skulu eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.“

Ég spyr mig: Er ástandið orðið þannig að það er orðið almannaheill og (Forseti hringir.) þjóðaröryggi að vísa öllum úr landi? — Frú forseti, ég er að koma að áhugaverðu greinunum sem tengjast þessu mjög náið. Ég óska því eftir að komast aftur á mælendaskrá.