Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:19]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að vera hér og fara í gegnum mannréttindasáttmála Evrópu með frú forseta. Ástæðan fyrir því að ég er að fara í gegnum hann er sú að það eru mörg atriði í því frumvarpi sem við ræðum sem stangast hreint og beint á við ákveðnar greinar þess sáttmála sem, eins og komið hefur fram í fyrri ræðum, tók gildi sem lög frá Alþingi hinn 30. maí 1994. Ég var búinn að fara í gegnum nokkrar greinar. Nú síðast fór ég í gegnum 8. gr. um friðhelgi einkalífsins. Það vill nú svo skemmtilega til að hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var akkúrat að fara að ræða um hana þannig að það er gott að ég get talað um hana.

Mig langar í þessari ræðu að tala aðeins um 12. gr. en í þeirri grein er fjallað um rétt til að stofna til hjúskapar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Karlar og konur á hjúskaparaldri hafa rétt á að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu í samræmi við landslög um þessi réttindi.“

Af hverju skyldi ég vera að nefna þetta? Jú, það er nefnilega þannig í frumvarpinu að verið er að afnema möguleika á fjölskyldusameiningu kvótaflóttafólks og það hafa komið fram ábendingar um að það stangist á við alþjóðareglur sem leyfa þetta. Ég mun kannski fara nánar í það þegar við förum að skoða flóttamannasamninginn. En það er mikilvægt að við séum ekki að setja einhverjar reglur sem valda því að fjölskyldum og jafnvel hjónum sé stíað í sundur með einhverju vanhugsuðu lagaákvæði í þessu frumvarpi.

Næst á eftir 12. gr. er, viti menn, sú 13. en hún fjallar um réttinn til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns. Það eru ansi margir umsagnaraðilar sem hafa bent á að þessi ákveðna grein sé brotin í frumvarpinu, þverbrotin meira að segja. Það er því mikilvægt að við heyrum hvernig hún hljómar. Hún hljómar svo, með leyfi forseta:

„Sérhver sá sem á er brotinn sá réttur eða það frelsi hans skert, sem lýst er í samningi þessum, skal eiga raunhæfa leið til að ná rétti sínum fyrir opinberu stjórnvaldi, og gildir einu þótt brotið hafi framið opinberir embættismenn.“

Já, frú forseti, sérhver sá sem á er brotinn sá réttur eða það frelsi skert sem lýst er — það þýðir m.a. að hælisleitendur skuli eiga raunhæfa leið til að ná rétti sínum fyrir opinberu stjórnvaldi. Með frumvarpinu er verið að takmarka þann möguleika, það er verið að takmarka endurupptöku, það er verið að takmarka margt fleira í þessu frumvarpi og það brýtur svo sannarlega beint í bága við þessa 13. gr. Ég skil ekki hvernig hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar telur sig, eins og hún sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2, geta lagfært þetta brot með einfaldri nefndarálitsskýringu.(Forseti hringir.)

Frú forseti. Það eru enn nokkrar greinar eftir í mannréttindasáttmálanum. Mér þætti vænt um ef frú forseti gæti sett mig aftur á mælendaskrá.