153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:25]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég var rétt komin af stað í umfjöllun minni um 4. gr. frumvarpsins þar sem verið er að veita lögreglu heimild til að afla vottorðs, flugheilbrigðisvottorðs, um að viðkomandi sé fær um að fara í ferðalag. Ég var búin að fara yfir hvernig öflun slíks vottorðs án samþykkis viðkomandi umsækjanda og án dómsúrskurðar felur í sér víðtækt inngrip inn í einkalíf þess einstaklings. Ég var að fara yfir frumskilyrðin varðandi þær takmarkanir sem hægt er að setja á friðhelgi einkalífs og styðst við umsögn Rauða krossins um þetta ákvæði. Í þeirri umsögn koma fram, á bls. 4, sem er mjög skýrt af dómasögu Mannréttindadómstóls Evrópu, þessi þrjú meginskilyrði fyrir takmörkunum á réttindum fólks sem sætir einhverjum takmörkunum.

Ekki er hægt að takmarka öll mannréttindi. Ég nefni sem dæmi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem ég var að fara yfir áðan, um bann við pyndingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð eða refsingu. Þar má t.d. engar undantekningar gera, það er ekki hægt að skerða þau réttindi með tilvísun í nokkurn skapaðan hlut. Það er einfaldlega bannað að pynda fólk og beita vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð eða refsingu. En í tilfellum eins og friðhelgi einkalífsins og tjáningarfrelsi er dæmi um þetta og samkomufrelsi og trúfrelsi og ferðafrelsi — þetta eru allt dæmi um réttindi sem má takmarka með lögum. En það er ekki nóg — og þetta er kannski mikilvægi punkturinn — að setja bara lög um að það megi takmarka einhver ákveðin réttindi. Það þarf líka að standast önnur próf, m.a. að lögin séu sett til þess að ná fram svokölluðum lögmætum markmiðum. Það er nú oftast nær frekar auðvelt að ná þeim markmiðum — mér finnst þessi lögmætu markmið mjög rúm og það er mjög auðvelt að standast þetta próf Mannréttindadómstólsins, skulum við segja. En þar sem dómaframkvæmdin er þyngst, þar sem matið er hvað ítarlegast, er þegar verið er að meta meðalhóf hvers kyns takmörkunar á þessum réttindum. Rauði krossinn orðar það þannig í umsögn sinni, og þannig er það líka oftast gert í dómum sem gengið hafa, að það gangi ekki lengra en nauðsynlegt sé svo að markmið þeirra náist. Þetta er einmitt mjög svipað í stjórnarskránni en þar segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, í 71. gr., 1. mgr. Og í 2. mgr. kemur fram að ekki megi gera líkamsrannsókn á manni eða rannsókn á skjölum sem skerði einkalíf hans nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Í umsögn Rauða krossins segir:

„Ákvæði 2. mgr. 71. gr. er sérregla sem tengist einkum rannsóknar- og þvingunarráðstöfunum lögreglu í tengslum við sakamál en í 3. mgr. 71. gr. er hins vegar almenn regla um takmarkanir á friðhelgi einkalífs réttinda sem falla undir ákvæðið. Samkvæmt 3. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt m.a. friðhelgi einkalífs ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.“

Rauði krossinn kemur með ágæta útlistun á því hvers vegna þetta skiptir máli í samhengi við frumvarpið og öflun þessa vottorðs sem ég tel tilefni til að fara betur yfir. En þar sem ég er að brenna út á tíma óska ég eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá til að geta farið nánar út í það.