153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[11:26]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það á að vera sérstök ákvörðun ef Ísland ætlar að taka þátt í landamæraeftirliti Evrópu á Miðjarðarhafi, að til þess sé þá keypt vél og rekin í því sambandi. Hér er talað um að þetta toppi eitthvert stefnuleysi og svo er talað um einhverja gagnslausa og þarflausa vél sem Isavia er með. Það liggur alveg fyrir í hvaða verkefnum hún er. Hún er í mjög nauðsynlegum verkefnum sem snúa að þeirra starfsemi, en notkun hennar er mjög lítil. Það hlýtur því að vera mjög hagkvæmt fyrir okkur að skoða það og í það erindi okkar eða samtal hefur verið tekið mjög vel á þeim bæ. Það er eitt af þeim atriðum sem við erum að skoða. Það vill nú svo til að það er nóg til af flugvélum í landinu. Þær hafa m.a. nýst í almannavarnaástandi við flutning á björgunarliði o.s.frv. og í sjúkraflugi og því sem á þarf að halda í þeim efnum. Það þarf því enginn að velkjast í vafa um það að við leitum annarra lausna til að sinna þessu eftirliti, sérstaklega á ytri hafsvæðum, og munum gera það í samvinnu við Landhelgisgæsluna. Við teljum að það verði miklu hagkvæmara. Eins og ég nefndi hér áðan þá er þessi vél (Forseti hringir.) mjög dýr í rekstri, mjög kostnaðarsamar fjárfestingar fram undan í henni. Ég tel að það sé mjög skynsamlegt, þó að það væri ekki nema út frá þeim sjónarmiðum, (Forseti hringir.) að skoða breytingu á þessum rekstri og fara í vélar sem jafnvel eru ekki með nema um 30%, eða einn þriðja, af þeim (Forseti hringir.) rekstrarkostnaði sem er á núverandi vélakosti.