Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Mig langar aðeins að nefna viðtal sem var í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, formann allsherjar- og menntamálanefndar. Það voru tvenn skilaboð frá henni í þessari frétt. Fyrri skilaboðin voru að Píratar stýri ekki þinginu vegna þess að Píratar séu ekki í meiri hluta. Það er ágætt að hún áréttaði þetta og undirstrikaði að sú staðreynd að dagskrá þingsins sé teppalögð með umræðu um útlendingamál væri á ábyrgð meiri hlutans sem setur málið á dagskrá þrátt fyrir að það sé vanreifað. Sú ábyrgð var undirstrikuð í atkvæðagreiðslu hér í byrjun þingfundar í dag þegar við Píratar lögðum til að þetta mál yrði tekið af dagskrá til að við gætum snúið okkur að brýnni málum og til að gefa allsherjar- og menntamálanefnd færi á að vinna betur úr þessu frumvarpi. Sú tillaga var felld og þar voru á rauða takkanum allir þingmenn stjórnarflokkanna og reyndar fulltrúar Miðflokksins og einhver frá Flokki fólksins, sýndist mér líka. Það er rétt að Píratar stýra ekki dagskránni, henni var stýrt af forseta Alþingis í byrjun dags og svo undirstrikað með atkvæðum stjórnarliða. Þau vilja eyða tíma þingsins í þessa umræða sem ætti frekar að eiga sér stað innan allsherjar- og menntamálanefndar þar sem hægt væri að taka tillit til umsagna frá sérfræðingum sem til þessa hafa verið hunsaðar.

Hitt sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir lagði áherslu á í viðtali við Stöð 2 í gærkvöldi var að væntanlega yrðu mjög litlar breytingar á frumvarpinu milli 2. og 3. umr. og hún sagði að það væri ljóst að einhverjir hefðu misskilið ákveðin ákvæði þannig að það þyrfti kannski aðeins að snyrta til texta, mögulega bara hnykkja á ákveðnum atriðum í nefndaráliti, alla vega einhverja lágmarksfriðþægingu. Svo sagði hún, með leyfi forseta:

„Hér er ekki verið að brjóta mannréttindi á fólki, hér er einfaldlega verið að auka skilvirkni.“

Þetta er mjög brött staðhæfing hjá hv. þingmanni í ljósi þess t.d. að Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hefur bent á að það sé mjög óheppilegt að ekki hafi verið metið hvort ákvæði þessa frumvarps stæðust stjórnarskrá eða mannréttindasáttmála. Það er ekki hægt að halda því fram að ekki sé verið að brjóta mannréttindi með þessu frumvarpi ef það hefur ekki verið skoðað. Það hefur ekki verið skoðað og þetta veit hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir en fer engu að síður fram með þessa vitleysu í fjölmiðlum. Hvaða mannréttindi er verið að brjóta? Það er eitthvað sem stjórnarliðar vita ágætlega.

Það er t.d. bent á það í fjölda umsagna að það sé ótækt að tafir sem rekja megi til aðstandenda barns geti komið niður á rétti þess til efnismeðferðar. Það er bara grundvallaratriði í barnasáttmálanum að mál barns sé skoðað á einstaklingsgrundvelli. Það að gera börn einhvern veginn ábyrg fyrir aðgerðum eða aðgerðaleysi foreldra sinna með þessum hætti, eins og lagt er til í frumvarpinu, er skref aftur á bak í réttindum barna hér á landi. Það er því hálfdapurlegt að fylgjast með meintum barnamálaráðherra víkja sér undan því að svara því hér áðan hvað honum þætti um þessa afturför. Hann er svo mikill liðsmaður að hann stendur greinilega með þessu máli, sama hvað.

Hvaða mannréttindi önnur er verið að skerða? Þjónustuskerðingin í 30. gr. — það var bent á þetta hjá landlækni, það var bent á þetta hjá Mannréttindaskrifstofu Íslands. Það eru grundvallarréttindi sem á að skerða hjá fólki. Réttur til heilsu og mannsæmandi lífs eru grundvallarréttindi sem er ekki hægt að skerða bara si svona en það er verið að gera í þessu frumvarpi. Það var bent á það í umsögnum og það ákváðu stjórnarliðar, þar á meðal hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, að væri bara allt í lagi. Takmörkun á fjölskyldusameiningu í 13. gr. frumvarpsins skerðir rétt til fjölskyldulífs sem er varinn af 71. gr. stjórnarskrár Íslands og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta er bara brot.

Hér er ég bara að stikla á þeim helstu mannréttindaskuldbindingum sem verið er að skerða í máli sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar heldur fram, í fullkominni bíræfni, að ekki brjóti mannréttindi á fólki. (Forseti hringir.) Það verður að koma fram, frú forseti, að það er ósatt.