Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:05]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Fyrst vil ég nefna að ég sat í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í fjögur kjörtímabil. Ég þekki ágætlega stöðuna í Reykjanesbæ. En síðustu tvö kjörtímabil sat ég fyrir framboð sem fékk nafnið Bein leið. Bein leið á ekki fulltrúa í velferðarráði Reykjanesbæjar þessa dagana þannig að það framboð tók ekki þátt í þessari bókun. Ég get alveg sagt það hér að ég hefði ekki stutt slíka bókun, það liggur alveg skýrt fyrir. Margir af þeim sem tóku þátt í framboði Beinnar leiðar á sínum tíma eru mótfallnir þessari bókun. Vissulega reynir á innviði Reykjanesbæjar þegar staðan er sú að mörg sveitarfélög hafa ekki sýnt þá ábyrgð sem Reykjanesbær sýndi á sínum tíma. Það vantar fleiri sveitarfélög til að taka þátt í þessu sameiginlega verkefni sem við þurfum að takast á við. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það vantar líka að ríkið setji þá fjármuni inn á svæðið sem því ber og hefur ekki gert. Það liggur alveg fyrir. Sjúkrahúsið okkar er í lamasessi. Heilsugæslan er í lamasessi. Við vitum að það er ekki verið að setja inn í grunnskólana þá fjármuni sem þarf til að sinna þessu fólki. Þannig að það er ekki af því að sveitarfélagið geti ekki ráðið við þetta, það er af því að ríkið er ekki að standa við það sem því ber inn á þetta svæði. Það liggur alveg fyrir skýrsla sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar lét gera fyrir mörgum árum síðan, þegar sveitarfélagið var kannski blankasta sveitarfélagið á Íslandi, um stöðuna og hvernig ríkið er að sinna þessu svæði. Þeir tóku 15 milljarða út úr Ásbrú og skildu ekkert eftir. Það er þessi raunverulega staða sem við erum að takast á við. Okkur vantar stuðning við það sem við erum að gera og að fleiri sveitarfélög taki þátt í þessu.