Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[13:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir tækifærið til að ræða skýrslu GREVIO-nefndarinnar sem hefur eftirlit með Istanbúl-samningnum um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Þessi skýrsla var birt í nóvember síðastliðnum og þar koma fram helstu niðurstöður nefndarinnar um framkvæmd samningsins hér á landi, auk tilmæla til Íslands um hvað megi fara betur.

Ég vil fyrst draga það fram, af því að við höfum ekki verið fullur aðili að Istanbúl-samningnum fyrr en frá árinu 2018, að það var eitt af fyrstu verkefnum minnar ríkisstjórnar að ljúka því og er þetta því fyrsta skýrsla nefndarinnar til Íslands. Ég vil líka segja að það er ánægjulegt að sjá GREVIO-nefndina fagna þeim víðtæku ráðstöfunum sem gripið hefur verið til á undanförnum misserum til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Ég þarf ekkert að rifja upp fyrir hv. þingmönnum allar þær breytingar sem við höfum samþykkt á löggjöf, síðast um bætta réttarstöðu brotaþola en þar á undan ný lagaákvæði um umsáturseinelti og kynferðislega friðhelgi sem eiga rætur að rekja til vinnu sem ég setti af stað á fyrsta ári mínu í forsætisráðuneytinu um heildstæða endurskoðun á málaflokknum. Það er dómsmálaráðuneytið sem hefur haft með þessar lagabreytingar að gera. En síðan eru margar mikilvægar ábendingar í skýrslunni þar sem einmitt er líka verið að fara yfir eftirfylgni og hvað út af stendur. Ég vil fullvissa hv. þingmann um það að við tökum þær ábendingar alvarlega og munum halda áfram að grípa til ráðstafana sem miða að því að innleiða samninginn og vinna gegn kynbundnu ofbeldi og auka jafnrétti á Íslandi, enda er kynbundið ofbeldi ein mesta samfélagslega meinsemd sem við er að eiga.

Ég vil byrja á að segja frá því að á grundvelli framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum hefur verið skipaður starfshópur þvert á ráðuneyti sem hefur það hlutverk að móta tímasetta landsáætlun um innleiðingu Istanbúl-samningsins og meta framfylgni ákvæða hans hér á landi. Sá hópur mun taka þessa skýrslu GREVIO til skoðunar. Síðan verða athugasemdir GREVIO-nefndarinnar hafðar til hliðsjónar við ýmsa vinnu sem nú þegar er í gangi innan ráðuneyta. Þar vil ég nefna sérstaklega starfshóp sem vinnur að nýrri aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota, sem hefur tekið mið af athugasemdum GREVIO í sínum störfum. Þessar athugasemdir verða líka hafðar að leiðarljósi við framkvæmd aðgerðaáætlunar um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni fyrir árin 2021–2026. Það var ég sem mælti fyrir þeirri áætlun hér á þingi og hún var samþykkt í mjög góðri sátt. Við erum að vinna að innleiðingu þeirrar áætlunar og ég vil greina frá því hér að u.þ.b. 98% grunnskóla á Íslandi eru komnir með forvarnateymi í takti við þá aðgerðaáætlun og við hyggjumst birta mjög reglulega upplýsingar um það hvernig okkur miðar en líka að taka þessar athugasemdir inn.

GREVIO-nefndin bendir á mikilvægi þess að tryggja fjármögnun félagasamtaka sem veita stuðning til þolenda ofbeldis. Ég vil nefna sérstaklega í því samhengi nýlegan samstarfssamning forsætisráðuneytisins við Stígamót um framhald verkefnisins Sjúkt spjall, sem er netspjall þar sem ungmenni geta rætt við ráðgjafa Stígamóta um kynferðisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Ég vil líka nefna að í lok síðasta árs veitti ég sex stofnunum og samtökum sem styðja við þolendur ofbeldis sérstakan aukastyrk sem voru Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð, Kvennaathvarfið, Rótin, Konukot, Sigurhæðir og Stígamót. Hins vegar er það auðvitað svo að það er mikilvægt að fjármögnun þessara samtaka og stofnana sé í föstum farvegi, bara eins og við höfum verið að vinna að með ýmsum frjálsum félagasamtökum, ég get nefnt Samtökin '78 sem dæmi, þannig að þessar fjárhæðir séu fyrirsjáanlegar fyrir þessi samtök og stofnanir.

Hv. þingmaður nefndi meðferð forsjár- og umgengnismála. Þá vil ég nefna að starfshópurinn sem hefur verið skipaður til að móta landsáætlun um innleiðingu samningsins mun taka allar ábendingar nefndarinnar til skoðunar, þar á meðal varðandi vernd barna gegn ofbeldi við meðferð umgengnis- og forsjármála. Það er unnið að skýrslu innan dómsmálaráðuneytisins um áhrif heimilisofbeldis á umgengnismál á grundvelli skýrslubeiðni frá nokkrum þingmönnum hér á Alþingi sem á að skila bráðlega.

Ég vil síðan aðeins nefna fræðsluna og þjálfunina sem ýmsar ábendingar eru um í skýrslunni. Ýmsar aðgerðir eru þegar í gangi. Ég vil nefna aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota þar sem eru ýmsar aðgerðir sem lúta að fræðslu og þjálfun lögreglumanna og ákærenda hefur verið efld. En það er líka lögð áhersla á fræðslu og þjálfun í öðrum áætlunum. Ég nefndi hér áðan þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Ég vil líka nefna vinnu sem hefur verið í gangi og byggir á skýrslu heilbrigðisráðherra frá árinu 2021 en nýlega komu fregnir af því úr heilbrigðisráðuneytinu að verið er að innleiða samræmt verklag og bæta þar með þjónustu heilbrigðiskerfisins við þolendur heimilisofbeldis. Það byggist sem sagt á skýrslu frá því á árinu 2021 þannig að þar erum við líka að fara að sjá breytingar í rétta átt. Félags- og vinnumarkaðsráðherra skipaði starfshóp í nóvember sem á að taka til skoðunar hvernig megi tryggja þá þjónustu sem þar heyrir undir sem standa þarf bæði þolendum og gerendum ofbeldis til boða með tilliti til Istanbúl-samningsins.

Það er svo sannarlega svigrúm til að gera betur þannig að ég vil bara fagna umræðunni og þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Þessi samningur sem heyrir undir Evrópuráðið er einn sá mikilvægasti sem við höfum fullgilt og þó að margt gott hafi verið gert er enn, eins og ég segi, svigrúm til að gera betur.