Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[13:42]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa umræðu hér. Ég held að hún sé brýn og góð en tek undir það að tvær mínútur duga eiginlega engan veginn til að koma sjónarmiðum á framfæri. Við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd munum líka fjalla um þessa skýrslu í næstu viku og ég geri ráð fyrir því, og ég vona að það sé mikil samstaða um það hér á þingi, að við höldum áfram að tala um þessi mikilvægu mál. En ég held samt sem áður að það sé líka ástæða til að horfa aðeins til fortíðar og horfa til þess sem gert hefur verið. Það er alveg ljóst að við höfum stigið mjög veigamikil og góð skref í þessum málaflokki og nægir að minna á Barnahús, Bjarmahlíð og Bjarkarhlíð og þann mikla áhuga sem erlendir aðilar hafa sýnt þessum fordæmum okkar. Ég held að það sé ekki síst mikilvægt að halda því til haga á hvaða forsendum þessi úrræði og þessi hugmyndafræði fór af stað svo að við getum örugglega staðið vörð um það áfram.

Því miður er heimilisofbeldi allt of algengt og líka hér á landi. Það er auðvitað algengt víða í heiminum og því miður er það líka þannig að hliðarverkanir Covid eru m.a. þær að það eru mun fleiri tilkynningar en áður um þessi mál. Mér finnst ástæða til að minnast á öll þau frumvörp sem við höfum verið að afgreiða að undanförnu. Á síðasta þingi afgreiddum við frumvarp um stöðu brotaþola og refsiþyngingu vegna barnaníðs og kynþáttafordóma. Áður höfðum við fjallað um frumvarp um kynferðislega friðhelgi, frumvarp um umsáturseinelti og endurskoðun á mansalsákvæðum hegningarlaganna. En það er alveg ljóst að skilaboðin í þessari skýrslu og í annarri umræðu um þessi mál eru alveg skýr. Við verðum sem þjóð að taka höndum saman og uppræta hvers kyns ofbeldi í samfélaginu okkar og þá ekki síst ofbeldi á heimilum. Og mig langar að taka undir með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, sem talaði hér á undan mér, það er mikilvægt að við skoðum þær leiðir sem sýslumaður er að nýta sér í skilnaðarmálum, (Forseti hringir.) þ.e. þessar sáttaumleitanir og málamiðlanir. Það verður að tryggja að hagsmunir barnanna séu alltaf númer eitt, tvö og þrjú (Forseti hringir.) og það er auðvitað óásættanlegt að með einhverjum hætti sé horft fram hjá ofbeldi sem börnin hafa þurft að þola eða horfa upp á.