Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[13:45]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn og kæra þjóð sem fylgist með. Það er mér sönn ánægja að ræða þessi mál. Það er margt áhugavert sem kemur fram í skýrslu GREVIO, en augljóslega þurfum við að gera betur í ýmsum atriðum og ég hvet ráðherra málaflokksins til að hefja sem fyrst vinnu við úrbætur til samræmis við ábendingar skýrsluhöfunda. Skýrslan bendir á ýmis atriði sem þarfnast úrbóta og nefnir m.a. að efla þurfi starfsemi Barnahúss enda sé stofnunin undirmönnuð og gjarnan löng bið eftir viðtalstíma. Ég vona svo innilega að við getum öll sameinast um þetta því að þetta þarf að laga sem fyrst.

Í skýrslunni er fjallað er um ýmsa annmarka á íslenskri löggjöf sem þurfi að leiðrétta til samræmis við Istanbúl-samninginn. Er þar bent á að breyta þurfi ákvæðum laga sem fjalla um kynferðislega áreitni, andlegt ofbeldi í samböndum, limlestingu kynfæra kvenna og fleiri dæmi mætti nefna, t.d. limlestingu kynfæra drengja. Okkar löggjöf hefur tekið breytingum til hins betra á undanförnum árum en verkefnið er viðvarandi og okkur ber að líta til ábendinga sem þessara og gera breytingar í þágu mannréttinda hið fyrsta.