Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[13:46]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ofbeldi sem skaðar andlega friðhelgi einstaklings getur haft alvarlegar og langvarandi afleiðingar á hann, líðan hans og sálarlíf. Slíkt ofbeldi er því miður veruleiki sem margar konur glíma við og getur reynst erfiðara fyrir stjórnvöld að taka á þó svo að stór skref hafi verið stigin í þeim efnum á síðustu árum. Umsáturseinelti, þar sem einstaklingur, svokallaður eltihrellir, situr um annan einstakling, hótar honum, eltir hann og fylgist með, getur haft alvarleg áhrif á fórnarlömb þess, flokkast sem alvarlegt andlegt ofbeldi sem engin kona á að þurfa að líða. Istanbúl-samningurinn fjallar m.a. um umsáturseinelti en meðlimir samningsins skuldbinda sig til að vernda konur gagnvart slíku ofbeldi og vinna að samhæfðri aðferð til að uppræta það.

Í GREVIO-skýrslunni, sem við höfum hér til umfjöllunar, kemur fram að bæta þurfi að öflun gagna um umsáturseinelti. Án gagna er ómögulegt að fá heildarmynd af vandanum hér á landi og með því að grípa inn í með viðeigandi aðgerðum. Í skýrslunni eru stjórnvöld hvött til að fylla í eyðurnar hvað þessi gögn varðar. Ljóst er að auka má umfjöllun og fræðslu um slíkt ofbeldi hér á landi með því að opna samtal og koma þessu ofbeldi upp á yfirborðið í íslensku samfélagi. Í kjölfarið er hægt að þjálfa viðeigandi aðila í hvernig taka skuli á slíku ofbeldi og koma í veg fyrir framtíðartilvik.

Virðulegur forseti. Í okkar samfélagi eru of mörg tilvik um umsáturseinelti, líklega mun fleiri en við gerum okkur grein fyrir. Það er mín von að stjórnvöld fylgi ábendingum GREVIO-skýrslunnar, bæti gagnaöflun, auki fræðslu og þjálfun og vinni markvisst að því að uppræta umsáturseinelti hér á landi.