Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[13:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þarfa umræðu og það var fín samantekt sem hæstv. forsætisráðherra fór yfir um það sem við höfum gert í þessum málaflokki vegna þess að á sama tíma og við ræðum það sem þarf að laga er mikilvægt að hafa líka sjónir á því sem vel er gert. Viðreisn hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á jafnréttismál, þar með talið vinnu gegn kynbundnu ofbeldi. Árið 2018 samþykkti Alþingi frumvarp okkar um breytta skilgreiningu nauðgunar, þ.e. að nauðgun yrði skilgreind út frá skorti á samþykki. Í kjölfarið, fyrir nokkrum mánuðum síðan, fjórum tel ég, óskaði hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson eftir skýrslu frá dómsmálaráðherra með upplýsingum um hvort verklagi hafi verið breytt hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum í kjölfar þess að lögin voru samþykkt og hvort starfsfólk lögreglu, ákæruvalds og dómstóla hafi fengið sérstaka fræðslu um umræddar breytingar. Við bíðum reyndar enn eftir skýrslunni en þessar upplýsingar munu hafa þýðingu vegna þess að fræðslan er gríðarlega mikilvægt atriði hér. Það er gott og blessað að fara í einstaka átaksverkefni en það er viðvarandi verkefni að stemma stigu við þeim ósóma sem kynbundið ofbeldi er. Það þarf fræðslu til þeirra sem starfa innan kerfisins og líka til almennings. Við höfum lagt fram tillögu um þessi mál sem ekki hefur hlotið brautargengi og það er mjög miður. Þess í stað hafa verið skipaðir hópar um ákveðin mál, m.a. um kynfræðslu. Þessir hópar hafa skilað góðri vinnu en sú vinna hefur verið í formi ábendinga sem því miður hafa dagað uppi í skúffu einstaka ráðherra. Það er því alveg ljóst að það þarf að taka þessi mál fastari tökum. Það er svo hættulegt við stöðuna eins og hún er, af því að það er ýmislegt gott við hana, að við verðum værukær og við þurfum einfaldlega að taka alvarlega skyldu okkar að takast á við og útrýma kynbundnu ofbeldi. Þetta er ekki átaksverkefni. Þetta er viðvarandi verkefni. (Forseti hringir.) Ég tel að það sé fyrst og fremst lærdómurinn af þessari skýrslu sem við, rétt eins og allir aðrir, getum tekið til okkar.