Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[13:51]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir að vekja athygli á þessari skýrslu, sem því miður er mikill áfellisdómur um margt sem tengist ofbeldi gegn konum. Ég hafði vonast til þess að hæstv. forsætisráðherra myndi ekki bara tala um það sem hefur gerst heldur setti fókus á það sem þarf að gera, því að við getum ekki endalaust skreytt okkur með skrautfjöðrum þess sem við höfum gert heldur verðum að horfa á það hvernig við ætlum að stöðva ofbeldi gegn konum.

Í þessari skýrslu koma fram bæði, já, jákvæð atriði, en það er búið að telja þau svo oft upp hér að ég ætla ekki að endurtaka þau, en það eru líka atriði hér inni sem benda á hvað megi betur gera. Þrátt fyrir að í lok ársins hafi hæstv. forsætisráðherra veitt styrki til félagasamtaka þá má það alls ekki vera þannig að þau þurfi að treysta á góðvilja hæstv. ráðherra í lok árs heldur þarf, eins og bent er á í skýrslunni, að tryggja að fjármögnun þessara frábæru samtaka, sem vinna að þessum málum, sé tryggð reglulega. Þar að auki er bent á að margt þurfi að gera til að bæta málsmeðferð ofbeldismála. Þá langar mig bara að nefna svar við nýlegri fyrirspurn sem ég fékk frá dómsmálaráðuneytinu sem sýndi fram á að því miður er málsmeðferðartími ofbeldismála aftur að lengjast. Ég treysti því og trúi að hæstv. forsætisráðherra komi með okkur í lið í því að berjast gegn því að þetta haldi áfram.