Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[13:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum hér í dag að ræða þessa GREVIO-skýrslu sem snýst um varnir og baráttu gegn heimilisofbeldi sem beinist að konum. Þessi umræða í dag er í takt við kjarnann í minni hreyfingu og það sem við höfum barist fyrir alla tíð. Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur var að fullgilda Istanbúl-samninginn. Þar er kveðið á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða konur sem verða fyrir ofbeldi, sinna forvörnum gegn ofbeldi sem og að bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð. Strax í byrjun setu sinnar sem forsætisráðherra setti Katrín Jakobsdóttir á legg stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi og afrakstur þeirrar vinnu, eins og hér hefur verið farið yfir, var þingsályktunartillaga og aðgerðaáætlanir sem byggðu á niðurstöðum hópsins.

Það eru gleðitíðindi að í skýrslunni er heildarniðurstaðan góð. Til að mynda er stjórnvöldum hrósað fyrir að vera með skýran vilja til að skuldbinda sig til að koma á kynjajafnrétti með sérstakri áherslu á baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og bæta stöðu þolenda í lagalegum skilningi. Minnst er á þau úrræði sem komið hefur verið á fót eins og hér hefur verið rakið, t.d. Barnahús, Bjarkarhlíð og Bjarmahlíð. Einnig var bent á það á síðasta ári, í annarri stórri skýrslu UN Women og Þróunarsamvinnustofnunar Sameinuðu þjóðanna, að aðgerðir íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, þar sem sérstaklega var staðið að úrræðum fyrir þennan viðkvæma hóp, hefðu tekist með miklum ágætum.

En eins og svo oft áður má gera betur en gert hefur verið. Hæstv. forsætisráðherra fór hér ágætlega yfir þau verkefni sem fram undan eru til þess að bregðast við þeim atriðum sem fram komu í skýrslunni. En ég vil nefna það hér, af því að verið var að ræða það áðan, að til að auka málshraða í réttarvörslukerfinu hefur fjárlaganefnd Alþingis bætt við fjármunum, sérstaklega hvað varðar þann hluta. Við vinstri græn leggjum áherslu á að Ísland eigi að vera í forystu á alþjóðavettvangi þegar kemur að því að tryggja konum og börnum öryggi um allan heim. Við eigum líka að miðla þeirri reynslu og þekkingu sem hér hefur skapast.