Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[13:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra sagði um skýrsluna, með leyfi forseta:

„Þetta er jákvæð skýrsla í nær alla staði fyrir Ísland og undirstrikar fyrst og fremst þann einhug sem hefur ríkt innan míns ráðuneytis, og reyndar allrar ríkisstjórnarinnar, um þann forgang sem þessi mál eiga að njóta.“

Þessi ummæli ráðherrans eru í mikilli mótsögn við niðurstöður skýrslu GREVIO um Ísland. Þær eru áfellisdómur yfir íslensku samfélagi og sýnir getuleysi við að verja börn gegn ofbeldi. Þó er skylda okkar um það rík og margskráð og samþykkt í lögum og reglum. Ein af grundvallarreglum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er að það sem er barni fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar ákvarðanir um málefni barna. Ákvæðum barnasáttmálans er ætlað að tryggja börnum víðtæka vernd gegn ofbeldi og leggur þá skyldu á aðildarríki að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að börn verði ekki fyrir illri meðferð. Það gera reyndar barnaverndarlög en framkvæmdinni er ábótavant.

Í skýrslunni er bent á að í ákvörðunum í umgengnis- og forsjármálum barna sé ekki nægjanlega horft til ofbeldis sem átt hafi sér stað, hvort heldur sem er gagnvart barni eða öðru foreldri þess. Gerðar eru athugasemdir við fjölda niðurfellinga í kynferðisbrotamálum gegn konum, bent á skort á úrræðum fyrir konur af erlendum uppruna, fyrir konur sem búa utan þéttbýlis og fyrir konur með fötlun. Vegna skorts á skráningu er erfitt að fá heildarmynd af fjölda mála, ákæra og sakfellinga sem kemur í veg fyrir að hægt sé að gera viðeigandi rannsóknir og meta skilvirkni réttarkerfisins.

Frú forseti. Miðað við viðbrögð hæstv. dómsmálaráðherra er ástæða til að ætla að ráðherrann sem fer með mikilvæga hluta þessara mála átti sig ekki raunverulega á stöðunni og það er áhyggjuefni.