Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[14:01]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn, kæra þjóð. Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að Tyrkland hafi sagt sig úr samningi sem kenndur er við Istanbúl. Tyrkland gerðist aðili að samningnum árið 2014 en sagði honum upp árið 2021. Það er viðvarandi barátta að tryggja mannréttindi og þótt árangurinn undanfarna áratugi sé góður þá getur komið bakslag sem þetta. Því miður er það staðreynd að í fjölda ríkja um allan heim eru mannréttindi kvenna, barna og minnihlutahópa þverbrotin á hverjum degi, og þegar ég segi minnihlutahópa þá á ég ekki síður við það fólk sem skilgreinir sig ekki sem karl eða konu. Þetta fólk verður fyrir miklu aðkasti og er mjög þýðingarmikið að tekið sé tillit til þeirra og þau fái þá vernd og þá hlýju og umönnun sem þarf því að það er mjög erfitt að bera þetta í brjósti sér, að upplifa sig hvorki sem karl eða konu, en við tökum tillit til þess.

Við megum þakka fyrir þá mannréttindavernd sem íslensk löggjöf veitir okkur en við verðum jafnframt að vera meðvituð um að hvenær sem er getur komið bakslag, jafnvel á Íslandi. Þá getum við aldrei réttlætt athafnaleysi í þessum efnum með því að vísa til annarra landa og segja: Mmm, við gerðum a.m.k. betur en þau.

Ég vil að lokum þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir að efna til þessarar umræðu og jafnframt hæstv. ráðherra og öðrum þingmönnum fyrir góða umræðu um þetta mikilvæga mál . Ég hvet ráðherra til dáða og vona að hann fylgi eftir þeim ábendingum sem fram komu í skýrslu GREVIO og segi eins og við gerum alltaf í Flokki fólksins: Áfram veginn.