Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[14:03]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Í ábendingum GREVIO er komið inn á það að hjálpa þurfi konum að komast úr ofbeldissambandi og aðstoða þær við að ná fjárhagslegu sjálfstæði. Viðreisn lagði fram tillögu, og hlaut stuðning þingheims, um lagabreytingu sem gerir fólki auðveldara að skilja við maka sinn, sérstaklega þegar um ofbeldissambönd er að ræða. Þessi lagabreyting kemur til áhrifa í júlí á þessu ári. Það var þannig að ef sótt var um skilnað og annar aðilinn neitaði þá stoppaði málið svo gott sem. Þó svo að kona næði hugrekki til að fara fram á skilnað við ofbeldismanninn þá gat hann haldið henni fastri í sambandinu. Jafnvel þó að eiginmaður sé með dóm fyrir ofbeldi gegn makanum voru lögin, og eru enn einfaldlega þannig, að ef hann neitaði var ekki hægt að veita konunni skilnað. Þetta er að taka breytingum sem betur fer og sýnir kannski hve góðum verkum við getum komið fram hér á þingi um ákveðin mál, þó svo að um stjórnarandstöðuflokk sé að ræða.

Það kemur líka fram í skýrslunni að veita þurfi þolendum kynferðisofbeldis skjótara aðgengi að sálfræðiþjónustu. Af því tilefni langar mig til að nefna annað mál sem Viðreisn lagði fram og fékk góðar undirtektir í þingsal — það var fjöldi meðflutningsmanna og málið fór með góðum og miklum stuðningi hér í gegn — en það var að koma sálfræðiþjónustu undir greiðsluþátttökukerfi sjúklinga. Þar skortir töluvert upp á framkvæmdir af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég held að ábendingin í þessari skýrslu sé langt frá því að vera eina ábendingin um að það er gríðarlega mikilvægt að klára þetta mál með sóma. En það er mjög mikilvægt að sjá þetta tiltekið sem eitt af atriðunum hér inni. Eftirfylgni og aðstoð við fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi, á sama tíma og við ætlum að leita allra leiða til að stoppa það, er gríðarlega mikilvæg. Það er réttlætismál fyrir viðkomandi einstaklinga og þeirra nánustu og það er gríðarlega mikilvægt mál samfélagslega. Ég vonast til að sjá þetta mál ná fram að ganga, þ.e. framkvæmdina á því, í anda samþykktar Alþingis. Ég þakka fyrir umræðuna.