Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[14:06]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari mikilvægu umræðu og þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin sem mörg kveiktu von og voru gleðileg. Ég vil árétta það sem mér þykir mikilvægast í þessari skýrslu og það er árétting nefndarinnar á því að ofbeldi gegn verndara barns er ofbeldi gegn barninu. Það er áhugavert og mikið gleðiefni að nefndin skuli hafa komið auga á þetta og gert þessar athugasemdir þar sem við sem höfum reynslu af þessum málum, ýmist sem lögmenn eða persónulega, höfum bent á þetta um áraraðir en því miður talað fyrir daufum eyrum. Frekari beiting úrræða á borð við nálgunarbann og annað það sem unnt er að gera til að tryggja öryggi þolenda á heimili sínu svo þeir þurfi ekki að leita út fyrir það eftir öryggi gegn áframhaldandi ofbeldi, þykir mér einnig mjög mikilvægt.

Ég tek undir með hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni varðandi það að tryggja þarf langtímafjármögnun frjálsra félagasamtaka sem veita þolendum aðstoð og heyrðist mér hæstv. forsætisráðherra vera með áætlanir þar að lútandi. En ég vil jafnvel ítreka það sem kemur fram í skýrslunni varðandi mikilvægi þess að tryggt sé að þolendur hafi aðgang að slíkri aðstoð hvar sem er á landinu.

Ég tek einnig undir með hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur varðandi það ofbeldi og þá ógn sem skýrslan bendir á að geti farið undir radarinn hjá okkur vegna skorts á því að sjónum sé beint að þeim hópum sem sæta svokallaðri margþættri mismunun, svo sem konum af erlendum uppruna, fötluðum konum og konum sem glíma við vímuefnavanda. Konur í þessum hópum eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir kynbundnu ofbeldi vegna jaðarsetningu sinnar.

Að lokum vil ég taka undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson. Það er hætt við því að við verðum værukær þegar við fáum það hrós sem þó er að finna í skýrslunni. Ég tekur undir með undrun hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur á ummælum hæstv. dómsmálaráðherra um skýrsluna og velti í kjölfarið fyrir mér hvert traust hæstv. forsætisráðherra sé til sitjandi dómsmálaráðherra í ljósi þeirra ummæla hans sem ekki bentu til þess að hann hefði sérstakar áhyggjur af þeim alvarlegu athugasemdum sem gerðar eru í skýrslunni.

Ég lýk þessu með því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið og vil hvetja ríkisstjórnina til góðra verka í þessum efnum.