Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

skýrsla GREVIO um Ísland.

[14:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. málshefjanda og þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Það hefur mjög margt gerst frá árinu 2018 þegar Istanbúl-samningurinn var fullgiltur og í raun og veru mjög merkilegt hvað margt hefur gerst, en um leið er gríðarlegt svigrúm til umbóta. Ég vil nefna hér í lokin örfá atriði. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa rætt atriði sem eru kannski ekki til umræðu á Alþingi á hverjum degi eins og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir, heiðursmorð, kynfæralimlestingar og þvinguð hjónabönd, eitthvað sem við erum ekki vön að ræða í okkar samfélagi en þurfum að sjálfsögðu að vera tilbúin að takast á við. Ég lít svo á að það sé komið í ákveðið ferli eftir að þessi tilmæli eru komin fram. Mér finnst það mjög mikilvægt, sem margir hv. þingmenn hafa nefnt hér, að ekki verði bara horft til þess ofbeldis sem beinist beinlínis að börnum heldur einnig þegar börn verða vitni að ofbeldi. Ég held að þetta sé ein mikilvægasta ábendingin því að þarna held ég að töluverðra úrbóta sé þörf. Ég vil minna á það sem fram kom í máli mínu, að sjálfsögðu bendi ég á það sem vel hefur verið gert, mér finnst mjög margt gott hafa gerst á undanförnum árum, að þetta varðar öll ráðuneyti. Ég fór bara yfir nokkur verkefni sem eru að fara af stað hjá félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti en þetta varðar öll ráðuneyti og þess vegna settum við þennan hóp niður sem er að taka á tilmælunum þvert á ráðuneyti. Áfram er mjög stór hluti þessara mála hjá dómsmálaráðuneytinu en ég vil líka minna á eigin ábyrgð, ábyrgð forsætisráðuneytisins sem vinnur núna úr niðurstöðum grænbókar um mannréttindi og þessi mál eru nátengd. Ég á von á því að leggja hér fram frumvarp um nýja mannréttindastofnun og ég lít á landsáætlun um mannréttindi sem annað lykilviðfangsefnið af því að við — og þetta er minn síðasti punktur, frú forseti — eigum það til að verða afslöppuð þegar við teljum að staðan sé nokkuð góð. En ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá er það það að í mannréttindamálum má aldrei slaka á. Það getur alltaf orðið bakslag og við þurfum alltaf að vera á vaktinni. Ég þakka annars fyrir góða umræðu.