Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:43]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar rannsókn. Jú, ég tel að fólk vilji aðlagast samfélaginu. Ég tel að fólk vilji taka þátt í samfélaginu. Ég tel að fólk vilji sjá sér og sínum farborða. Vissulega reynir á á meðan þú ert að læra tungumálið og ert að koma þér inn í samfélagið. Ég bjó t.d. í Svíþjóð og það leið heilt ár áður en Vinnumálastofnun eða Arbetsförmedlingen fór að hringja í mig og bjóða mér í vinnu af því að þeir litu þannig á að ég þyrfti ár til að aðlaga mig að sænsku kerfi þannig að þeir biðu. En þegar ég var búinn að vera í ár — ég var reyndar búinn að vera að vinna megnið af tímanum af því að ég fann mér bara vinnu sjálfur — fóru þeir að hringja í mig þá og þá gat ég fengið næga vinnu. Ég held að staðan sé bara þessi; að þessi hópur sem kemur til landsins vill fara að vinna.

Talandi um þessa skilvirkni sem við ætlum að ná í gegnum þetta frumvarp þá held ég að ég hafi heyrt hv. þingmann, sem í pontunni stóð á undan mér, segja: Við þurfum að gera þetta skilvirkt þannig að við getum hleypt fólki fyrr inn í landið.