Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:56]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Ég ætlaði að halda áfram þar sem ég lét staðar numið í gær, en þar var ég að fjalla um misbeitingu valds við val á leiðum til úrlausnar máls, sem getur auðvitað gerst þegar kemur að því að stjórnvald taki stjórnvaldsákvarðanir. Þetta frumvarp sem við erum að ræða hér í dag, útlendingafrumvarp, tel ég að opni mjög margar leiðir fyrir misbeitingu valds þegar kemur að því að úrskurða um úrlausn máls umsækjanda um vernd. Þessi meginregla leiðir af þeirri reglu að það sé óheimilt að byggja ákvörðun um málsmeðferð á tilteknum sjónarmiðum, en það getur aftur haft áhrif á það hvert efni ákvörðunar í málinu verður. Þarna má segja að regla eins og réttmætisreglan fáist við ómálefnaleg sjónarmið.

Það eru fjölmörg ákvæði sem ég er búin að fara yfir hér í síðustu ræðum mínum þar sem er opnað fyrir svo matskenndar ákvarðanir þó að endanleg ákvörðun í niðurstöðu máls sé bara byggð á matskenndum forsendum, sem gæti síðan leitt til þess að það teljist brot á réttmætisreglunni, réttmætisreglu stjórnsýslulaga. Þar af leiðandi er niðurstaðan náttúrlega sú að ákvörðunin hefur verið tekin á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða.

Þegar mál kemur til úrlausnar hjá stjórnvaldi er stundum hægt að fara með það í fleiri en einn farveg. Það fer náttúrlega eftir því að hvaða niðurstöðu er stefnt hvaða málsmeðferðarreglum ber að fara eftir. Hvaða málsmeðferðarreglum ber að fara eftir? Það er bara gott og gilt. Það eru til mismunandi málsmeðferðarreglur. En það sem þetta útlendingafrumvarp opnar fyrir er að ein regla, sem ég er búin að fara yfir, varðandi endurupptöku máls verður innleidd í útlendingalögin í stað þess að fara eftir þeirri meginreglu sem er nú þegar til staðar í almennum stjórnsýslulögum sem hefur verið notuð og virkar vel í framkvæmd. En það sjónarmið að ákveða niðurstöðu máls með það að markmiði að komast hjá því að fara með mál í gegnum flóknari og tímafrekari málsmeðferð er ómálefnalegt. Það á að flýta fyrir einhverju máli og flýta ákvarðanatöku til að þurfa ekki að fara flóknar leiðir að því og kannski mögulega að afla frekari gagna, það myndi teljast vera ómálefnalegt. Og þetta er bara nákvæmlega það sem ég er að tala um; það eru leiðir í þessu frumvarpi þar sem það er opið fyrir það að taka fljótlegri og einfaldari leiðir, eins og t.d. ákvæði varðandi endurtekna umsókn, eða ákvæði varðandi það að niðurstaða um synjun á máli sæti sjálfkrafa kæru. Það er náttúrlega opnað fyrir það — nú eru stjórnvöld að reyna að afgreiða málið hraðar og það leiðir þá til þess að það verður þá bara ómálefnalegt sjónarmið að baki því. Að fara flýtileiðina er alltaf ómálefnalegt.

Hafi efni ákvörðunar verið ákveðið á grundvelli slíks sjónarmiðs þá hefur stjórnvaldið misbeitt valdi sínu við val á leiðum til úrlausnar máls. Það er bara nákvæmlega það sem ég er að tala um. Það eru fjölmörg ákvæði þar sem það er eiginlega bara verið að opna fyrir það að stjórnvald hafi að einhverju leyti lagalega heimild til þess að fara gegn þessum almennu reglum í stjórnsýslulögum. Að einhverju leyti myndi þetta teljist vera löglegt. En segjum svo að þetta fari fyrir dómstóla, að það verði úrskurðað um hvort þetta hafi verið tekið á grundvelli málefnalegra sjónarmiða, hvort stjórnvöld hafi misbeitt valdi sínu við úrlausn þessara mála og þessarar umsóknar, þá gæti vel verið að það stjórnvald verði rassskellt sem beitti þessum aðferðum og þessum útlendingalögum sem við erum hér að ræða í dag.

Ég vil því nýta tækifærið hér til að hvetja meiri hlutann að taka þetta til skoðunar og bara í alvöru talað hlusta á það sem við í Pírötum erum að segja hér í dag af því að þetta eru góðir punktar. Og eins og ég segi: Við viljum ekki vera löggjafarvaldið sem samþykkti léleg lög sem mun alltaf þurfa að fara með fyrir dómstóla.

Virðulegur forseti. Ég væri til í að þú myndir setja mig aftur á mælendaskrá.