Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:26]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Mig langaði bara að fá að nýta tækifærið hér, á meðan ég er enn í húsi, og ítreka sjónarmiðin sem ég er búin að koma á framfæri hér í fyrri ræðum mínum í dag og líka í gær varðandi það hættulega fordæmi sem þessi lög gætu skapað til frambúðar ef þau yrðu samþykkt hér á Alþingi. Við erum annars vegar með þennan lagabálk og hins vegar lagabálk, stjórnsýslulög nr. 37/1993, sem varða hvor sitt efni. Stjórnsýslulögin eru almenn og en útlendingalögin varða bara málefni útlendinga. En það sem hæstv. dómsmálaráðherra er að reyna að koma í gegn eru einhverjar sérreglur um málsmeðferð í útlendingalögum sem er rosalega — kannski ekki hættulegt, jú, veistu, ég ætla bara að segja það, það er hættulegt. Þetta mun skapa hættulegt fordæmi og ég bara velti því fyrir mér hvað gerist ef þessir tveir lagabálkar stangast á. Hvað gerist ef fara þarf í gegnum ferlið og líta til málsmeðferðarreglna stjórnvalda við ákvörðun um úrlausn mála, hvaða reglum verður farið eftir þá? Mun Útlendingastofnun þá bara fá einhverja sérheimild til þess að fara eftir einhverjum sérreglum? Hvers konar þróun er það? Hvernig myndi það síðan þróast seinna meir? Fá þá önnur stjórnvöld, t.d. Landspítalinn, Háskóli Íslands, hvaðeina annað, bara einhverjar sérreglur um almennar málsmeðferðarreglur?

Ég hef í allan dag verið að hvetja hv. allsherjar- og menntamálanefnd til þess að taka þessar athugasemdir og ábendingar ítarlega til skoðunar þegar þetta mál fer aftur í nefnd á milli 2. og 3. umr. Ég veit ekki hvort beiðni mín sé að ná til einhvers, ég get ekki sagt til um það. En ég vona innilega að það verði hlustað á mig. Eins langar mig að benda hv. nefnd á að Páll Hreinsson er auðvitað sérfræðingur í þessum málaflokki og legg ég til að hann verði kallaður til sem gestur á fundi nefndarinnar til þess að taka fyrir nákvæmlega það atriði sem ég hef verið að tala um hér í dag, margar ræður í röð, út af því að ég tel þetta vera alvarlega þróun. Það að stjórnvöld velji sér einhverja sérstaka leið til þess að stytta málsmeðferðina, til þess að stytta tímann sem fer í að fara yfir gögn um umsókn, er bara eitthvað sem þetta frumvarp mun leiða af sér. Þar eru heimildir til þess að afgreiða umsókn á styttri tíma en gert er ráð fyrir í núverandi lögum, sem nota bene er ekkert að eins og ég hef komið skýrt á framfæri. Ég tel það því brjóta gegn meginreglunni um misbeitingu valds við ákvörðun um úrlausn mála. Ég hef farið ítarlega ofan í það og ofan í þau skilyrði sem þarf að uppfylla þegar stjórnvald er að fara yfir mál sem kveður á um rétt eða skyldu manna. Ég held að það sé bara rosalega mikilvægt að nefndin og líka hæstv. dómsmálaráðherra taki þessar ábendingar til greina.

Eins og við öll sem höfum komið upp í pontu hér höfum bent á, og kjarni málsins er sá, hefur þetta lagafrumvarp verið lagt fram fimm sinnum. Ég trúi því ekki að í öll þessi fimm skipti hafi enginn gert athugasemd við það að málsmeðferðarreglurnar í þessum lagabálki stangist á við málsmeðferðarreglurnar í almennum stjórnsýslulögum. Jafnvel þótt það stangist ekki á, jafnvel þó þetta sé samræmanlegt, þá er samt skrýtið að hafa einhverja sérheimild bara fyrir Útlendingastofnun til þess að nota, til þess eins að afgreiða umsóknir hraðar, sem mun auðvitað bara leiða til minni skilvirkni í kerfinu. Ég veit að þetta er gert í því skyni að auka skilvirknina en við svona hraða afgreiðslu í málum sem kveða á um rétt eða skyldur manna þá ber að taka þetta alvarlega. Það ber að skoða þetta ítarlega og það er líka hluti af öðrum málsmeðferðarreglum stjórnvalda sem ég mun fara nánar út í í ræðum mínum hér seinna í kvöld.

En til þess að draga þetta saman og ljúka þessu þá tel ég þetta vera alvarlega þróun og ég geri alvarlega athugasemd við þetta og hvet hv. nefnd til þess að taka það til greina.