Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Læknafélagið sendi líka inn umsögn um þetta mál, í rauninni mjög einfalda umsögn. Í henni er áréttuð sú afstaða að ef það þarf að gefa út heilbrigðisvottorð, heilbrigðisskoðun eða landlæknisrannsókn á grundvelli þessarar nýju 3. mgr. 17. gr. laganna, ef frumvarpið verður að lögum, og viðkomandi samþykkir ekki slíka rannsókn þá yrði sú rannsókn aldrei framkvæmd að mati Læknafélags Íslands nema að undangengnum dómsúrskurði. Þetta er svona eitt af þessum augljósu réttindum fólks, sem við Íslendingar höfum að sjálfsögðu, líka fólk sem kemur hérna, og er einhvern veginn verið að reyna að þræða fram hjá: Nei, þau megi ekki hafa þessi réttindi.

En sem betur fer þá eru mannréttindi einmitt orðin nægilega öflug. Þó að það sé verið að reyna að grafa undan þeim hjá ákveðnum hópi hérna með þessu frumvarpi þá erum við enn þá með félög sem standa fast á því að þetta sé mikilvægt því að um leið og þú byrjar að grafa undan þeim á einum stað þá smitar það út í aðrar réttindaskerðingar líka. Viðkvæðið er alltaf: Þetta hefur nú verið gert áður, það er komið fordæmi fyrir þessu. Þetta er nú alveg óþarfi og við vitum betur, og allt þetta sem við höfum séð alveg í gegnum söguna um nauðsyn þess að hafa þessi réttindi, að fólk geti einmitt sagt: Nei.

Læknafélagið áréttar einnig að synjun um aðgengi að heilbrigðisþjónustu að 30 dögum liðnum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar stangist á við grundvallarmannréttindi, líkt og fram kemur í fjölmörgum mannréttindasamningum sem Ísland hefur staðfest. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir að í frumvarpinu segi að það hafi ekki verið tilefni til að skoða hvort þetta samræmist stjórnarskrá eða öðrum mannréttindasáttmálum, þau segja það bara, þá koma allar þessar umsagnir og segja: Nei, fyrirgefið, þið hafið rangt fyrir ykkur. Augljóslega erum við í nefndinni og fulltrúar okkar í nefndinni að segja: Heyrðu, þetta gengur ekki. Alþingi verður að fá úr því skorið hvort frumvarpið sem við erum að fara að samþykkja sé eins og umsagnaraðilarnir sögðu. Við Píratar erum ekkert að finna þetta upp. Umsagnaraðilar segja þetta hver á fætur öðrum. Við verðum að fá úr því skorið, ekki frá ráðuneytinu eða stjórnvöldum því að þau eru einmitt að reyna að troða þessu í gegn, þau eru augljóslega hlutdræg hvað það varðar, heldur frá óháðum aðila sem vonandi allir treysta til að gefa okkur rétta mynd af því hvort frumvarpið standist stjórnarskrá og mannréttindasamninga. Þegar við biðjum um svoleiðis, mjög einföld beiðni myndi maður halda, þá er bara sagt: Nei.

Ef það kjarnar ekki þetta mál og vanda þessa máls þá veit ég ekki hvað, að ráðuneytið eða ráðherra fullyrði að engin þörf sé á að skoða einhver tengsl við stjórnarskrá eða mannréttindaákvæði. Umsagnaraðilar segja: Fyrirgefðu, jú, það er bara augljóst. Og við segjum: Heyrðu, gætum við þá fengið mat á því eins og ráðuneytið á að skila með frumvarpinu, eins og það á að skila þessu mati en gerði það ekki, sagði bara að það væri óþarft? Gætum við fengið þetta mat? Nei, er svarið. Það segir í rauninni allt sem segja þarf. Ég sé engan annan möguleika en að þau viti hver niðurstaðan úr slíku mati verður ef við fáum mat frá óháðum aðila. Hún verður neikvæð fyrir þau og þá er þetta frumvarp búið, þá er það farið út. Það væri fáránlegt að samþykkja svoleiðis frumvarp á Alþingi Íslendinga, en þau vilja ekki fá það mat og það segir í alvörunni allt sem segja þarf um af hverju við erum að benda á það.

Ég ætla að halda áfram að benda á það í næstu ræðu ef forseti vildi vera svo væn að setja mig á mælendaskrá aftur.